Hér hefði átt að vera ferðasaga…

Kjerag…en ekkert varð því miður úr göngunni á fjallið Kjerag fyrir sumarfrí. Fyrst vorum við ekki nógu sátt með veður og helgina eftir það vorum við á vakt. Enn á ný rennur þessi sérstaki, og að sumu leyti heillandi, tími upp þegar norskt samfélag leggst í dvala í því sem hér er kallað fellesferien og mætti ef til vill íslenska sem samfríið eða alfríið…jafnvel erkifríið. Það er sá tími sem nánast allt vinnandi fólk er komið í sumarfrí. Þeir vinnustaðir sem komast upp með það loka hreinlega, strætisvagnar fækka ferðum sínum um helming og, það sem er nú best við þetta, maður ekur nánast auðar götur til og frá vinnu í stað þess að hanga í seigfljótandi bílaröð og komast hvorki lönd né strönd.

Minn vinnustaður býr ekki við þann lúxus að geta bara lokað í nokkrar vikur. Í staðinn fyllist hér allt af sumarafleysingafólki og skyndilega þekkir maður ekki kjaft á kaffistofunni, allt gengur einhvern veginn hægar af því að sumarfólkið er ekki alveg inni í aðferðum og vinnubrögðum og ég fer virkilega að hlakka til að komast í frí sjálfur og snúa svo bara aftur í hið hefðbundna andrúmsloft hversdagsins mánudaginn 18. ágúst. Þó finnst mér býsna fínt að vera í vinnunni hluta af þessu höfuðfrítímabili og allra best að vera laus við umferðina. Hingað til Tananger koma um 9.000 manns til vinnu dag hvern, hér eru nánast öll olíufyrirtækin og þjónustufyrirtæki þeim tengd með starfsemi og svæðið er í sjálfu sér ekki mikið stærra en Hveragerði eða svo þannig að fólk getur ímyndað sér geðveikina.

Að loknum vinnudegi á fimmtudaginn hefst svo eitt langþráðasta sumarfrí síðari ára. Mesta vinnutengda „kikkið“ verður að setja upp sjálfvirka svörun á vinnunetfangið um að ég sé í fríi og vinsamlegast biðja þá sem ætla að eyðileggja daginn minn með einhverju veseni um að snúa sér til eins eða fleiri af nokkrum nafngreindum einstaklingum sem einmitt eru þeir sömu og hafa verið að beina sínum vandamálum að mér undanfarið á meðan þeir sleikja sól annars heims dauðadrukknir í sínu eigin persónulega helvíti. Ég játa að Þórðargleðin kraumar í brjósti mér.

Eldsnemma á föstudaginn hefst mikið heimshornaflakk en þá fljúgum við til Amsterdam klukkan 06:00 og þaðan áfram til Minneapolis eftir stutta millilendingu. Þar fáum við að dunda okkur í fimm tíma áður en við fljúgum áfram til San Francisco og lendum þar, þökk séu níu tíma mismun, klukkan 16:58 þennan sama föstudag. Ég hef ekki komið til Bandaríkjanna síðan 1996 en í þá daga fyllti maður ESTA-ferðaheimildina út á þar til gert eyðublað í fluginu sjálfu, gjarnan við skál og stundum ekki alveg með heimilisfang gististaðar algjörlega á tæru en það slapp nú yfirleitt fyrir horn. Núna er þetta allt framkvæmt á lýðnetinu og kostar heila 14 dollara á umsækjanda. Þarna þurfti ég meðal annars að lýsa því yfir að ég hefði ekki átt þátt í þjóðernishreinsunum nasista árabilið 1939 – ’45, hefði ekki sætt ákæru í sakamáli og væri almennt tiltölulega óbrjálaður. Ég virðist hafa náð að þóknast Department of Homeland Security í svörum mínum þar sem heimildin fékkst að lokum.

Fyrsta verkefni sumarfrísins (fyrir utan þessar þrjár flugferðir) verður auðvitað að fylgjast með UFC-kvöldinu í Dublin á laugardaginn sem reyndar hefst í hádeginu þarna við Kyrrahafsströndina. Írska kráin The Irish Times stendur fyrir beinni útsendingu, er í göngufæri við hótelið og má líklega reikna með stemmningu þar sem titilbardagi kvöldsins stendur milli Írans Conor McGregor og Diego Brandao frá Brasilíu sem væntanlega er miður sín yfir þessum blessaða fótboltaleik og liggur sennilega í fyrstu lotu…

Meira um þetta allt saman í fyllingu tímans.

 

Athugasemdir

athugasemdir