Dagbækur eru alveg einstakur gluggi inn í fortíðina, hvort sem er í nálægð eða fjarlægð. Um það hef ég skrifað áður hér. Ég var að blaða í dagbók ömmubróður míns, Sigurðar Skúlasonar magisters, um helgina en hana rakst ég á innan um aðrar dagbækur og forna pappíra. Sigurður hafði cand.mag-próf í íslenskum fræðum og var mikill íslenskumaður eins og sést á textanum. Gaman er að sjá gömlu kommusetninguna, frá því fyrir 1974, sem margir hljóta að hafa verið nærri því að missa vitið yfir á sínum tíma. Ég gríp hér niður 9. ágúst 1950 og kann ýmsum að þykja forvitnilegt og broslegt (greinaskil eru mín og þrjú nöfn hafa verið fjarlægð af tillitssemi við afkomendur): (MYND: Berlínarmúrinn heitinn sem þó leit ekki dagsins ljós fyrr en réttum 11 árum eftir að neðangreint er fært í letur.)
Í dag var blíðviðri, en rigning eins og áður víða um land og síldveiði léleg. Ég fór í sundhöllina að vanda og hitti þar að máli einn af baðvörðunum, Sigurð Jónsson Þingeying (son Jóns á Yzta-Felli). Bauð ég honum upp á viðtalsgrein í Samtíðinni. Hann þá það með þökkum, en við frestum samtalinu, þar til útséð er um, hvort Sigurður fer suður til Vínarborgar til að keppa þar á sundmóti á næstunni. Á því er sá ljóður, að Vín er austan hins svonefnda járntjalds, þ.e. á hernámssvæði Rússa. Og eins og nærri má geta, eru Rússar dauðsmeykir við að hleypa Sigurði austur fyrir tjaldið. Sendiráð þeirra hér má alls ekki árita vegabréf hans, en honum er sagt, að hann geti reynt að fara til Stokkhólms og bíða þar svars Rússa svo sem hálfsmánaðartíma!
Sigurð grunar, að sá hálfi mánuður kunni að lengjast nokkuð, svo að hann er afhuga hinu rausnarlega boði hinna ‘frjálslyndu’ kommúnistaleiðtoga. Hins vegar hefur Sigurður grun um, að mótið kunni að verða háð vestan járntjalds, og þá er auðvitað öllum frjálst að fara þangað og reyna sig.
Ekki er að furða, þótt 5. herdeildin á Íslandi flytji hraustlega erindi Rússa hér og prédiki af mikilli kokhreysti um mannkærleikann og frjálslyndið í Austurvegi. Það er alveg sérstakur svipur á því sómafólki, sem titlað er kommúnistaleiðtogar nú á dögum hér á landi. Lítum t.d. á Þorvald Þórarinsson lögfræðing á götu. Hvenær sést þeim manni stökkva góðlátlegt bros? Eða Brynjólfur Bjarnason. Ef menn mæta honum, gæti svipurinn ávísað innræti kaldrifjaðs dómara, sem ætlaði að fara að undirskrifa 20 – 30 dauðadóma yfir sjálfstæðismönnum, m.a. bekkjarbræðrum sómamannsins, sem hann kvaðst fyrir nokkrum árum glaður mundu láta hálshöggva, ef til kæmi, að aðstæður leyfðu slíkt.
Þá er ekki heilindunum fyrir að fara hjá [X], ‘kvartjúðanum’ í ætt við próf. [Y]. Af orðum mínum mætti ætla, að mér væri eitthvað í nöp við þetta fólk. En það er síður en svo. [X] greyið varð stúdent með mér, og varð þá helzt álitið, að hann væri trúaður. Á stúdentsárum sínum orti hann hjartnæm erfiljóð eftir [Z], systur sína, hálfgerðan sálm. Og [X] var að hugsa um að velja sér að kjörsviði guðfræðibókmenntir eftir siðaskipti með sérstöku tilliti til Jóns Vídalíns. Nordal vantreysti [X] nokkuð við að ráðast í þetta og bað mig því að lesa á hverjum sunnudagsmorgni 2 prédikanir úr Vídalínspostillu með honum.
Ég gerði það. Las [X] aðra prédikunina og ég hina. Þetta gerðist í súðarherbergi í húsi Guðrúnar Erlings, ekkju Þorsteins Erlingssonar skálds (í Þingholtsstræti 33), en þar bjó [X] þennan vetur. Ég er nú búinn að gleyma, hvaða ár þetta var, enda skiptir það litlu máli. Við urðum stúdentar vorið 1922, svo að líklega hefur þetta verið veturinn 1925 – 26. Vorið 1926 fór ég nefnilega í próf. En af [X] og guðsorðinu er það að segja, að hann hasaðist brátt upp á því, en snéri [sic] sér að austfirzkri ljóðagerð á 17. öld og hlaut séra Bjarna Gissurarson í Þingmúla og kveðskap hans sem höfuðritgerðarefni á meistaraprófi, ef ég man rétt. […] Seinna, að afloknu meistaraprófi, sigldi [X] til Þýskalands og gerðist þar kommúnisti með þeim árangri, að hann hefur síðan verið einn skeleggasti áróðursmaður 5. herdeildar Rússa hér á landi.