Heilastr mæl þú, Björn

bjorn dagbjMér leiðist fátt meira en að bera rafrænan fjaðurstaf að tölvustýrðu bókfelli til þess að tuða um svonefnda Icesave-samninga eða væntanlega Evrópusambandsaðild hérvistarslóða. Að mínu viti má grafa upp margt líflegra til að skrifa um á opinberum vettvangi nú þegar Hrunadans ýmissa víkinga, sem kenndir eru við útrás, er hratt og örugglega að koma Íslandi á þann kalda klaka sem landið sjálft er. Ef til vill hæfir þar skel kjafti. (MYND: Björn Dagbjartsson. Utanríkisráðuneytið er rétthafi.)

Ég get þó ekki skrifa bundist þegar ég les ágæta grein Björns Dagbjartssonar, fyrrum Alþingismanns og samferðamanns míns í utanríkisráðuneyti landsins fyrir um áratug, í Morgunblaði dagsins. Ber greinin fyrirsögnina ‘Hvernig var Icesave hugsað af höfundunum?’ og kemst Björn þar hvort tveggja skemmtilega að orði aukinheldur sem hárbeitt skeyti hans hæfa markið af festu en sanngirni. Áður en ég sný mér að greininni ætla ég þó að rifja Björn upp eins og hans ágæta persóna horfði við mér.

Þegar ég fregnaði síðast af Birni hafði hann afhent Sam Nujoma, forseta Namibíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands í Namibíu með Aðsetur í Maputo. Þetta var haustið 2001 þegar ég stundaði nám í hagnýtri fjölmiðlun og heimurinn stóð á öndinni eftir að íslamskir bókstafstrúarmenn á farþegaþotum gerbreyttu heimssýn Bandaríkjamanna.

Áður en til þessa kom hafði ég um nokkurt skeið starfað sem öryggisvörður hjá Securitas hf., nánar tiltekið árin 1995 – 1999. Sinnti ég á þessum tíma laganámi og síðar BA-námi í íslensku. Lengi vel sinnti ég næturgæslu í utanríkisráðuneytinu við Rauðarárstíg og þótti vistin góð. Á fyrstu hæð ráðuneytisins hafði Þróunarsamvinnustofnun Íslands aðsetur sitt í einu herbergi. Var þar aðsetur Björns Dagbjartssonar sem stýrði þeirri ágætu stofnun. Björn var (og er sennilega enn) alúðlegur maður. Ávallt er mér minnisstætt þegar hann stormaði frakkaklæddur inn eldsnemma á morgnana og bauð góðan dag í einu orði, uppkveðnu af djúpri raust hans og vart skiljanlegu. Að þessari kveðju lokinni rauk hann með heilan kaffibrúsa upp á kaffistofu, fyllti hann þar af kaffi og hvarf inn á skrifstofu sína. En þá að grein Björns.

Í henni lætur hann að því liggja að höfundar Icesave-reikninganna, hins nýja gálga okkar Íslendinga, hafi alltaf ætlað sér að ná sér í viðskiptavini sem treystu því að heil þjóð myndi ábyrgjast ruglið í þeim, sama hvað á gengi. Þetta hafi reynst rétt. Svo skrifar Björn: ‘Ég fyrirlít fyrrverandi stjórnendur Landsbankans og reyndar bankanna allra og eigendur þeirra […]. En mér svíður sárt að sjá marga þeirra, sem komu þjóðinni í þessa stöðu […] vera ráðna í ábyrgðarstöður eins og ekkert sé. Sumir til að kenna ungu fólki fjármálaspeki, aðrir í stjórnunarstöður…’

Þarna verð ég að taka undir með Birni. Finnst venjulegum og þokkalega viti bornum Íslendingum það ofureðlilegt að menn á borð við fyrrum bankastjóra Landsbankans kenni viðskiptafræði við Háskólann í Reykjavík, rétt eins og þeir væru að kenna fluguhnýtingar hjá Stangaveiðifélagi Keflavíkur? Eða að sömu menn stofni ráðgjafarfyrirtæki út um víða veröld með fjármálaráðgjöf að helsta markmiði. Ætti það ekki einmitt að vera helsta markmið sæmilega þenkjandi yfirvalda að koma í veg fyrir að Icesave-meistarar, fyrrum bjórverksmiðjueigendur og menn sem notað hafa heilu knattspyrnufélögin sem skiptimynt fái að koma nálægt því að miðla vafasamri þekkingu sinni til nokkurs manns? Mér er sem ég sæi Bandaríkjamenn leyfa Bernard Madoff að kenna uppbyggingu gróðavænlegra fjölskyldufyrirtækja við Harvard eða Yale.

En hér á Íslandi verða hugleiðingar á borð við þessar aldrei meira en lesendabréf í dagblöðum. Slíkt gerist þegar stjórnvöld eru svo önnum kafin við að hefja aðildarviðræður við Evrópusambandið að stórglæpir og landráð heima fyrir fá einfaldlega að sitja á hakanum svo dægrum skiptir.

Athugasemdir

athugasemdir