Heilagt stríð vegna smurbrauðs

runstykkiÉg var með minn annan starfsmannafund í morgun. Ákvað að gera vel við liðið á föstudegi enda margir búnir að vera ósérhlífnir við að bjarga andliti deildarinnar með því að hlaupa í skarðið fyrir vinnufélagana í þeirri veikindafjarvistaholskeflu sem janúar og febrúar voru. Ég pantaði því stóran bakka af rúnstykkjum hjá mötuneytinu og hlammaði þessu á borðið í fundarherberginu með sparibrosið á. Nístandi augnaráð hins íslamska hluta undirmanna minna mætti mér í dimmri þögn. Ég áttaði mig þegar á kaldhæðni örlaganna þar sem dömurnar í mötuneytinu höfðu af alkunnri þjónustulund sinni smurt 12 stykki með skinku og 12 með osti. Tæpur helmingur minna starfsmanna eru múslimar og hlíta því boði sinna trúarbragða að svínakjötsát sé viðurstyggð. Töldu þeir þar með að sér vegið þar sem ég birtist með slíkt guðlast ofan á brauði og bar fyrir þá. Í einu vetfangi var ég kominn í stöðu skopmyndateiknara Jyllandsposten sem sefur með öxi og haglabyssu undir koddanum eftir spámannsteikningar sínar. Fundurinn gekk þó vonum framar en hér eftir býð ég eingöngu upp á brennivín á vinnufundum. Þeir geta sjálfum sér um kennt.

Mánaðamót eru ekki sú stórhátíð hér í Noregi sem þau alla jafna eru á Íslandi þar sem laun streyma gjarnan í vasa vinnulúins almúgans síðasta eða fyrsta dag mánaðar, áfengisverslanir, veitingahús og Kringlur stútfyllast af fólki og peninga- og brennivínslykt svífur yfir vötnum. Hérna sér ekki högg á vatni um mánaðamót enda hef ég sjaldan átt náðugri daga í aukavinnunni á N.B. Sørensens en núna á miðvikudags- og fimmtudagskvöld. Hver veit nema helgin verði eins.

Algengustu launaútborgunardagar í Noregi eru 5., 7. (flest sveitarfélög), 10. og 20. (ríkið) dagur mánaðar. Ég þekki engan sem fær útborgað um mánaðamót hérna. Eins borga mörg fyrirtæki út laun hálfsmánaðarlega eins og tíðkaðist víða á Íslandi ‘í gamla daga’. Ég man að ég fékk laun annan hvern föstudag í byggingarvinnunni hjá Ístak fyrir tæpum 20 árum. Af þessu leiðir að fæstir reikningar eru með gjalddaga nálægt mánaðamótum. Mjög oft semur maður sjálfur um gjalddaga þegar maður byrjar einhver reikningsviðskipti en bjóðist það ekki er algengt að gjalddagi sé 15., 20. eða 25. Ég sakna svolítið þessa mánaðamótatakts sem einkennir lífið á Íslandi. Samfélagið veður í seðlum í nokkra daga og lætin eftir því. Hérna er enginn svona kúfur þar sem þetta dreifist nokkuð jafnt yfir mánuðinn. Einu sinni á ári verður þó algjör sprenging en það er seinni hluta júnímánaðar. Þá er orlofið greitt út fyrir komandi sumarfrí og endurgreiðsla frá skattinum kemur inn á reikning þorra Norðmanna. Þetta eru oft verulegar fjárhæðir og margir bíða með ýmis stærri útgjöld þangað til í júní.

Heimsmeistaramótið í skíðaíþróttum í Holmenkollen við Ósló er einn hvimleiðasti fjölmiðlaviðburður síðari ára og hér er hreinlega ekki annað í fjölmiðlum um þessar mundir. Ég sé að meira að segja RÚV minnist ekki orði á þetta, fjölmiðill sem myndi sýna beint frá briddsmóti í Sómalíu til að rækja menningarlegar skyldur sínar svo HM í skíðum er varla neinn heimsviðburður. Í fáum íþróttum er ég eins illa að mér, rétt kannast við sænsku svighetjuna Ingemar Stenmark sem hirti einmitt gullið í svigi í Holmenkollen árið 1979 og Bjarni Fel. var seinþreyttur að segja frá í hrikalegum lýsingum sínum til forna. Svíi í svigi, skemmtilegur orðaleikur á föstudegi.

En nú held ég til starfa fram á rauða nótt. Hvílík frelsis- og gleðitilfinning að fá að sofa út á morgun!

Athugasemdir

athugasemdir