Í gær varð sá viðburður að ónegldu Nokian Hakkapeliitta R vetrardekkin, sem ég býsnaðist svo mjög yfir verðinu á í fyrra, fóru undir bifreiðina. Eins og svo gjarnan gildir um vetrardekk eru þau ekki á alveg eins flottum felgum og sumardekkin enda er mér að jafnaði aðeins meira sama um útlitið á drossíunni yfir skammdegismánuðina, aðalatriðið að hún skili mér frá A til B og helst til baka aftur.
Það er Dekk1 hér í Sandnes sem á heiðurinn af því að vera minn þjónustuaðili í hjólbarðaskiptum auk þess að geyma þann umgang, sem ekki er í notkun, á svonefndu dekkjahóteli en það er algjör lúxus eftir að hafa burðast með dekk inn og út úr geymslum og kjöllurum haust og vor í tæp 20 ár.
Heimsókninni í gær fylgdu þau skilaboð frá honum Helge vini mínum á Dekk1, að þessi sumardekk færu klárlega ekki undir bílinn aftur…nema mig langaði til að eiga yfir höfði mér himinháa sekt fyrir kolólöglegt ökutæki en hérna í Noregi fylgjast yfirvöld á mjög smásmugulegan hátt með ástandi og öryggisbúnaði ökutækja og sekta eigendur þeirra mjög frjálslega við minnstu vik frá lögum og reglugerðum. Ég á mun auðveldara með að lifa við þá staðreynd að ég þurfi að láta út 6 – 8.000 krónur fyrir ný dekk í apríl 2014 en hefði ég þurft að gera það án tafar eins og kom upp í byrjun desember í fyrra. Ljóst er að minnsta kosti að þetta verður ekki ókeypis auk þess sem ég þarf tvær stærðir (205 að framan og 225 að aftan) en hvað um það, den tid den sorg eins og sagt er.
Helgin hefur þó ekki verið ókeypis þótt ég komist upp með að bíða með ný dekk fram á vor. Í síðustu viku gaf eitthvað sig í þvottavélinni okkar með þeim afleiðingum að hún sló út öllu rafmagni í húsinu við gangsetningu. Þar með var lagst í leit að ódýrri þvottavél á Finn.no sem leiddi til kynna okkar við hinn dularfulla Lars Inge sem býr í afskekktu koti lengst uppi á heiði fyrir ofan Ganddal með bókstaflega fullt hús af þvottavélum, þurrkurum og eldavélum auk varahluta í þessi tæki. Hann dundar sér svo við að gera við og selja græjurnar og býður meira að segja sex mánaða ábyrgð á öllu sem hann lætur frá sér.
Við fengum fína Electrolux-þvottavél á 1.500 kall og ekki nóg með það heldur tókst þessum undarlega heiðarbúa að selja okkur þurrkara frá sama framleiðanda líka og dró öllum að óvörum upp greiðslukortaposa þegar við sögðumst bara vera með akkúrat fyrir þvottavélinni. Ég stillti mig með naumindum um að spyrja hvort hann gengi um í kvenmannsfötum með hárkollu heima hjá sér, geymdi rotnandi lík móður sinnar í svefnherberginu og brytjaði gesti og gangandi niður í sturtunni ef einhver slysaðist til að líta í heimsókn og fá að bregða sér í hana. Það var alla vega viss léttir að aka á brott með fullan bíl af Electrolux-heimilistækjum og millipúðum, svo þurrkarinn gæti staðið ofan á systur sinni, sem Lars prangaði inn á okkur fyrir aukreitis hundraðkall.
Vorum á lánsbíl frá vinnustað Rósu ef einhver er að velta því fyrir sér hvernig maður komi þvottavél og þurrkara inn í Benz CLK.