Fjölmiðlar heimsins beita kröftum sínum mjög til rannsókna á jólamatseðlinum í dag. Ég rakst á grein á Vísi þar sem fram kemur að tæp 73 prósent Íslendinga hyggist leggja sér hangikjöt til munns á jóladag en 53 prósent hamborgarhrygg á aðfangadag. Þá kveðast 8,3 prósent landans spæna í sig kalkún þann dag. (MYND: Pinnekjøtt með sínu óspennandi útliti. Það lítur reyndar skár út eftir eldun en í búðunum er það hreint og beint grátt á litinn.)
Stavanger Aftenblad fjallar einmitt um sömu hluti í dag í grein sem ber fyrirsögnina Dette spiser vi til jul. Kemur þar fram auk annars að jólamatseðillinn hér í landi gerist æ fjölbreyttari eftir því sem árin líða en engu að síður álíti mjög margir það heilagt mál að halda í þær hefðir sem ríkt hafa innan fjölskyldunnar mann fram af manni. Svona er jólafæði Norðmanna margbreytilegt samkvæmt könnun Opplysningskontoret for egg og kjøtt:
53 prósent borða rifjasteik – ribbe.
34 prósent pinnakjöt – pinnekjøtt.
8 prósent medisterbollur – medisterkaker.
7 prósent jólapylsur – julepølser.
4 prósent kalkún – kalkun.
3 prósent lútfisk – lutefisk.
2 prósent kjötbollur – kjøttkaker.
2 prósent skinku – skinkestek/juleskinke.
1 prósent önd – and.
1 prósent lambasteik – lammestek.
1 prósent hreindýrasteik – reinsdyrstek.
1 prósent þorsk – torsk.
7 prósent eitthvað annað – annet.
Það byltingarkennda er að séu prósentutölurnar hér að ofan lagðar saman er útkoman 124 prósent sem hlýtur að sýna betur en nokkuð annað hve ört Norðmönnum fjölgar.
Pinnekjøtt er eitthvað sem við höfum verið á leiðinni að bragða á, það getur varla verið lífshættulegt fyrst við komum lutefisk niður. Óhugnaðurinn við kjöt þetta er hve viðbjóðslega það lítur út. Þetta minnir helst á tægjur úr dekkjum að viðbættum góðum slatta af fitu og beinum. Pinnekjøtt virðist þó vera það sem í norskri matargerð kemst næst íslensku hangikjöti, þetta er þurrkað, reykt og oft saltað lambakjöt sem borið er fram með kálrótarstöppu, kartöflum og soði af kjötinu sjálfu. Súrkál og rauðkál eru einnig vinsælt meðlæti á Sunnmøre og i Sogn og Fjordane. Við erum væntanlega runnin á rassinn með að prófa þetta fyrir þessi jól, það er svo sem ágætiskvóti að miða við einn framandi norskan rétt fyrir hver jól.
Á mínu heimili hefur kalkún verið á borðum á aðfangadag alla mína hunds- og kattartíð og má það einkum rekja til námsdvalar foreldra minna vestanhafs á sjöunda og áttunda tug síðustu aldar, nánar tiltekið í Michigan þaðan sem þau færðu þennan ameríska sið að fögru landi ísa. Ég get ekki kvartað yfir þessu, kalkún með hefðbundnu meðlæti er alveg glettilega góð máltíð og engin jól án hans segi ég, eins og allir segja auðvitað um sinn jólamat. Um áramótin hefur mín fjölskylda hins vegar hamborgarhrygg og ómissandi er hangikjötið á jóladag þótt þungt sé það í maga og maður endi afvelta í sófanum, bölvandi sér fyrir ofátið. Gaman að þessum hefðum samt…