Haustlitir og fleira

haustÉg fjallaði um það í pistli um daginn að haustið væri komið í Stavanger og rigning skollin á. Síðustu dagar hafa verið dásamleg undantekning frá því ástandi og einkum og sér í lagi í dag þegar sól skein í heiði í blankalogni og það í bland við byrjandi haustliti gróðursins. Kyrrðin var algjör. Ekki ætla ég í neinn meting við hið íslenska haust sem mér finnst allra hausta unaðslegast en mér verður hugsað til kynngimagnaðrar lýsingar Kiljans á umhverfi séra Snorra í Húsadal í Íslandsklukkunni sem lauk á orðunum ‘…það var eins og hérna ætti landið heima.’ Þannig er hér umhorfs.

Ég er ekki á prósentum hjá RÚV þótt ég bendi ítrekað á forvitnilega umfjöllun úr Efstaleitinu en fullyrði að ekkert þokkalega þenkjandi fólk af minni kynslóð má láta þessa umfjöllun Kastljóss á föstudaginn fram hjá sér fara. Þarna er rætt um það hvort góður texti geti komið slæmu lagi til bjargar og öfugt og brot sýnd úr gullmolum íslenskrar tónlistarsögu. Viðtal við Valgeir Guðjónsson slær gjörsamlega í gegn að mínu viti.

Annars hefur lífið sjaldan verið betra og klikkað að gera í kjötbransanum. Á morgun, mánudag, mega allir sem geta og vilja mæta klukkan 06 og svo verður heldur betur tekið á því fram eftir degi og kvöldi. Ætlunin er að skila tólf tonnum af lambalæri út á markaðinn á þessum eina degi og 30 manns í minni deild bíða spenntir eftir því að taka þátt í því verkefni, ‘mál es vílmögum at vinna erfiði’ eins og sagði í Bjarkamálum inum fornu. Aldrei fyrr munu lömbin þagna jafnkirfilega og á morgun.

Hvernig stendur á því að Gallup er að gera kannanir meðal íslensks almennings um það hvort vísa skuli málum fjögurra spilltra ráðherra til Landsdóms?? Auðvitað á að rétta yfir fólkinu hjá þessum sérdómstóli, hann var settur á laggirnar með lögum númer 3/1963 einmitt til þess að komast til botns í málum á borð við þetta. Ákærur strax! Ekki held ég að fjórmenningarnir góðu hefðu hlíft grunuðum íslenskum afbrotamönnum við ákærum hefðu þau fengið að ráða.

Annars bið ég að heilsa eins og Jónas Hallgrímsson í frægu ljóði sínu og er hress við jafndægur á hausti.

Athugasemdir

athugasemdir