Það er erfitt að kvarta yfir veðrinu hérna á Stavanger-svæðinu þessa dagana. Skafheiður himinn og logn dag eftir dag, spegilsléttur flötur á Gandsfirðinum og ægifagrir haustlitir bera þessari skemmtilegu og oft sveiflukenndu árstíð fagurt vitni. Vissulega er orðið kaldara þegar út er farið að morgni en hitastigið yfir miðjan daginn er töluvert yfir meðaltali árstímans um þessar mundir. (MYND: Útsýn til norðurs af svölunum undir kvöld.)
Haustið hefur oftar en ekki verið tími breytinga hjá mér, gjarnan á vinnumarkaði en einnig á ýmsum öðrum vettvangi, og nú ber svo við í morgun að ég fæ boð í atvinnuviðtal hjá Rowan Drilling í næstu viku, amerísku borfyrirtæki með töluverð umsvif í Norðursjónum, Mexíkóflóa, Trinidad og Mið-Austurlöndum. Margir mánuðir eru síðan ég sendi þeim umsókn en það var í byrjun júní, fljótlega eftir að niðurstaða lá fyrir úr prófunum í brønnteknikk-náminu, en mér er svo sem farið að lærast að hérna í Noregi telst þetta ágætur millitími.
Það er skammt stórra högga á milli þessa dagana því í gær var mér tilkynnt um myndarlega kauphækkun hjá ConocoPhillips frá 1. október að telja, eiginlega svo myndarlega að aðra eins hækkun hef ég aldrei fengið í einu lagi síðan þátttaka mín á vinnumarkaði hófst í árdaga. Var hreinlega orðlaus í nokkra stund og eins gott að enginn hringdi á meðan. Ég stend því á töluverðum krossgötum fari svo að Rowan bjóði mér starf á olíuborpalli í kjölfar viðtalsins í næstu viku. Sennilega þægi ég það þó enda hálfhjákátlegt að við hjónin fjárfestum í misdjöfullegum fagnámskeiðum (sum innihéldu stærðfræði!) fyrir á þriðju milljón íslenskra króna bara til þess svo að afþakka hugsanleg atvinnutilboð vilji svo ólíklega til að þau berist.
Yfirmenn mínir hjá ConocoPhillips styðja þessar fyrirætlanir mínar heilshugar, hvetja mig á alla lund og láta mér þar að auki í té svo fögur meðmæli að nálgast að vera haugalygi enda færi ég kannski ekki svo ýkja langt þar sem Rowan Drilling er einn af borverktökunum hjá þeim, með tvo tjakkapalla (e. jack-up rig) á Ekofisk-svæðinu. Stundum virðist inngangurinn að Laxdæla sögu mjög einfaldur í samanburði við rembihnút lífsins.
Ýmsar hugsanir brjótast því um í mér yfir n-ta kaffibolla dagsins og ekki verra að eiga fríhelgi fram undan til að koma sér í gírinn fyrir fyrsta atvinnuviðtalið síðan 20. júní 2011 þar sem núverandi starfi var landað. Þessi amerísku fyrirtæki ætlast að jafnaði til þess að kandídatinn sé að rifna úr forvitni og geti varla hamið flaum gáfulegra spurninga um afkomu fyrirtækisins, umhverfisstefnu og framtíðaráætlanir. Mér gæti ekki verið meira sama og þekki norsku hliðina á Rowan hvort sem er nokkurn veginn gegnum núverandi starf. ConocoPhillips gengur svo langt að setja fram eigin óskir um atvinnuviðtöl á heimasíðu sinni þar sem því er haldið fram blákalt að spurningar umsækjandans hafi jafnt vægi á við spurningar vinnuveitanda og (milli línanna) að illa undirbúið fólk hafi ekkert að gera í viðtal hjá þeim.
Ég er nú að hugsa um að láta bara skeika að sköpuðu engu að síður. Gaman að komast í viðtal auðvitað eftir alla þessa fyrirhöfn en fer fjarri að afkoma mín og lífshamingja velti á niðurstöðunni. Sem sagt hæfilegt kæruleysi og ég ætla bara að leyfa mér að hafa meiri áhyggjur af tímanum hjá henni Harriet Haug, tannlækninum mínum geðþekka, tveimur klukkustundum fyrir viðtalið.
Full ástæða til að vona að lesendur nær og fjær eigi góða helgi auðvitað.