Harmsaga korta minna

CreditcardNú varð það tíðinda um helgina að ég hef lent í mínu öðru greiðslukortasvikamáli um ævina. Varð ég þessa áskynja þegar ég fékk símtal frá kortaöryggisdeild Nordea-bankans í hádeginu í gær með fyrirspurn um það hvort ég hefði verið að reyna að framkvæma vörukaup á manekkihvaðasíðu.com sem væri amerísk netverslunarsíða. Ég varð að neita þessu pent enda ekki notað kreditkortið í annað en flugmiða- og hótelpantanir það sem af er árinu. Var mér þar með tjáð að óprúttnir aðilar (eru þá til aðrir aðilar sem eru prúttnir?) hefðu komist yfir kortanúmerið, líklega með innbroti á einhverja netsíðu flugfélags eða vefverslunar (ég nota bara Amazon reyndar) og bankinn hefði því ákveðið að loka kortinu og senda mér nýtt í vikunni. Svona lagað er á pari við að ég þyrfti að skíra mig upp á nýtt, ég kann gamla númerið utan að, finnst það heimilislegt og mun sakna þessa. Boðskapurinn: Fjandinn hirði tölvuþrjóta heimsins!

Eins og glöggir lesendur hafa vafalítið tekið eftir skrifa ég að ég hafi nú lent í mínu öðru greiðslukortasvikamáli um ævina. Hitt átti sér stað í apríl 2002 og var nú öllu dramatískara. Var málum þá svo háttað að fríður hópur brátt útskrifaðra nemenda úr hagnýtri fjölmiðlun heitinni við HÍ hafði brugðið sér í útskriftarferð til hinnar fögru Lundúnaborgar hjá engilsaxneskum til að skoða söfn, ræða kenningar Marshall McLuhan og (kannski fyrst og fremst) drekka sig rænulausan. Allt var þetta nú býsna skemmtilegt, fyrir utan kannski röðina að Madame Tussauds sem gerði út um safnahluta ferðarinnar strax á öðrum degi. Tók ég þarna til að mynda minn fyrsta sopa af áfengum drykk klukkan 12:00 á hádegi föstudaginn 25. apríl eftir að hafa farið um þurra eyðimörk allan veturinn, átta og hálfan mánuð. (MYND: Skömmu eftir fyrsta sopann á hótelherbergi í London. F.v. Björn Gíslason, Björgvin Hilmarsson og undirritaður.)London2002

Til að kóróna Bjarmalandsför þessa héldum við Björgvin Hilmarsson, sameindalíffræðingur, klettaklifrari, fjallaleiðsögumaður og ljósmyndari, áfram til borgarinnar Barcelona í Katalóníuhéraði hinu spænska þar sem við komum okkur fyrir í þakíbúð einni við götuna Londres og nutum alls þess besta sem Captain Morgan og sól geta í sameiningu boðið upp á. Alveg þangað til ég fékk símtal frá Visa Ísland eins og það hét þá. Þar á línunni var manneskja sem spurði mig hvort ég væri staddur í Mílanó á Ítalíu. Ég sagði sem satt var að til þess fallega lands hefði ég ekki komið síðan ég var níu ára en sæti hins vegar einmitt við öndverðan enda Miðjarðarhafsins í góðu yfirlæti. Þetta þóttu viðmælanda mínum ískyggileg tíðindi þar sem einhver, sem virtist vera með Visa-kortið mitt upp á vasann, hafði keypt skartgripi fyrir 250.000 krónur í Mílanó fyrir réttum fimmtán mínútum, einmitt klukkutíma eftir að ég notaði kortið í hraðbanka í Barcelona og ljóst að engar aðrar flugsamgöngur en geimferðir hefðu náð að koma mér milli þessara tveggja borga á svo skömmum tíma.

Niðurstaðan í því máli varð sú sama og í gær, kortinu lokað og nýtt kort gefið út. Hins vegar þurfti ég að gefa mig fram í höfuðstöðvum Visa (þá í Mjódd) eftir heimkomu og fylla þar út fjölda eyðublaða og skýrslna um málið auk þess að merkja skilmerkilega við hvaða færslur tímabilsins væru mínar og hverjar ég kannaðist ekki við. Ég kannaðist nú kannski ekki í smáatriðum við öll kortaviðskipti ferðarinnar en útilokunaraðferðin dugði…færslur utan Bretlands, Spánar og Íslands.

Miðað við umfang greiðslukortasvika í heiminum, sem ég sat eitt sinn stórmerkilegan fyrirlestur um hjá svikadeild Eurocard í Evrópu, verð ég nú bara samt að játa mig tiltölulega sáttan við að lenda ekki í kortamisferlum af hálfu annarra en sjálfs mín, oftar en á tólf ára fresti.

Athugasemdir

athugasemdir