Fyrst er hér áríðandi tilkynning frá atlisteinn.is þess efnis að Tinna, sem ritaði athugasemd við pistil frá því í september um varahluti í hansahillur, sendi vinsamlegast tölvupóst á netfangið atli@atlisteinn.is hið bráðasta en henni láðist að skilja eftir nokkrar upplýsingar um hvernig ná megi sambandi við hana.
Ég verð hálfsvekktur finni ég ekki að minnsta kosti eitt atriði í viku hverri til að gapa yfir í fari Norðmanna. Þetta er indælasta fólk en sumt hátterni þeirra er svo sérstakt að rita mætti margar doktorsritgerðir í mannfræði um. Ég skrifaði um daginn um spéhræðslu norsku þjóðarinnar í ræktinni og tók þar undir skrif Arnar félaga míns Markússonar, tölvunarfræðings í Björgvin. Nú get ég ekki orða bundist yfir samhenginu á milli trúarhita Norðmanna og norsks leigumarkaðar.
Hérna er það sem sagt daglegt brauð að sjá fólk, sem auglýsir eftir leiguíbúðum í Stavanger Aftenbladet, taka það sérstaklega fram að það sé kristinnar trúar. ‘Vi er to kristne venninner på 20 og 21 år som ønsker et sted å bo…’, ‘Tre kristne ikke røykere fra Telemark søker leilighet…’ og fleira í þeim dúr er hreinlega daglegt brauð í auglýsingum hér. Jú jú, trúin flytur fjöll og svo framvegis en þetta er náttúrulega bilun. Ég myndi frekar leigja reykjandi djöfladýrkendum mína fasteign en þremur kristnum ‘ikke røykere’ frá Þelamörk, svo mikið er víst. Sennilega eru þetta vitringarnir þrír sem þarna leita sér að íbúð. Leigan greidd í gulli, reykelsi og myrru.