Það er alveg á beinu að menn verða ekkert öllu líkari Gunnari Smára Egilssyni SÁÁ-formanni en Per A. Thorbjørnsen, borgarfulltrúi Venstre í borgarstjórninni okkar hér í Stavanger. Það er eins og að í hverju landi sé minnst ein manneskja með afgerandi útlitseinkenni af hverju tagi fyrir sig. Hér sé ég til dæmis annað slagið pólskan strætisvagnabílstjóra sem keyrir leið 11 og er gjörsamlega alveg eins og Gísli Einarsson á RÚV. Maðurinn hefur náttúrulega ekki hugmynd um þetta og veit sennilega ekkert hver Gísli er en það væri gaman að sýna honum fram á þetta. Þá er skemmst að minnast þess er við fundum hinn norska Sigga Hlö í strætisvagnaskýli á Forus í fyrrasumar. Þá nagaði ég mig í alla tiltæka líkamshluta yfir að hafa ekki verið með myndavélina á mér. Engir tvífarar hafa samt enn slegið Óskars Bergssonar/Willem Dafoe-tvíeykinu við. (MYND: (uppi) Per/Rogalands Avis. (niðri) Gunnar Smári/DV.)
Fram undan er vika námskeiða. NorSea er að senda mig á þriggja daga námskeið í notkun og úttekt á lyftibúnaði af ýmsu tagi. Þar verð ég á dagtíma mánudag til miðvikudags. Þetta eitt þýðir langa og stífa kennslu í fyrirlestraformi. Eins og þetta sé ekki nógu slæmt verð ég á dyravarðanámskeiði hjá öryggisfyrirtækinu PSS frá klukkan 17 til 21 þriðjudag til fimmtudags sem táknar að tvo af fjórum virkum dögum komandi viku verð ég gjörsamlega á námskeiðum.
Hvað er ég að gera á dyravarðanámskeið? Jú, eins og kunnugir þekkja hefst árlegur tveggja mánaða brennivínsþurrkur minn 1. janúar næstkomandi. Þá opnast auðvitað sá frábæri möguleiki að framleiða töluverðar aukatekjur með því að sinna dyravörslu um helgar fyrst ég ligg ekki blindfullur á barborðinu sjálfur. Auðvitað nenni ég þessu helst ekki, ég sór við skegg mitt og skalla þegar ég hætti á Næsta bar í febrúar 2003 að nú væri dyravörslu lokið í mínu lífi. Ástæða þeirrar dyravörslu var að ég var á leið til Finnlands sem Nordplus-skiptinemi og þurfti aukakrónur. Ástæðan núna er að við Rósa göngum í hnapphelduna næsta sumar eins og sagt hefur verið frá hér og af því tilefni þarf að hella brennivíni ofan í fjölda manns. Hef ég tryggt mér skemmtistaðinn Spot í Kópavogi í þessu skyni. Brennivín kostar peninga, það er ein dapurlegasta staðreynd lífs míns, og í þessu augnamiði ræð ég mig tímabundið hjá PSS.
PSS er annars athyglisvert fyrirtæki, þeir hafa milli 80 og 90 dyraverði í miðbæ Stavanger á sínum snærum en sinna auk þess lífvörslu, tónleikagæslu, þjónustu í veislum og umferðarstjórn við vegaframkvæmdir. Dæmigert fyrirtæki sem myndi aldrei bera sig á Íslandi en hérna eru þetta aðalmennirnir í öryggisbransanum við hlið Falck og Securitas. Ég tók grunnnámskeiðið fyrir öryggisverði hjá þeim í fyrrasumar en nennti svo ekki að fara að vinna við þetta aftur. Í ljósi aðstæðna núna hafði ég samband á ný og var boðinn velkominn. Mig vantar þetta framhaldsnámskeið í viðbót og svo get ég hafið störf í janúar. Ég reikna ekki með að það standi mikið lengur en fram að sumarfríi, svo sem nóg að gera hjá NorSea, en svona er eðli Íslendingsins, þegar skyndilega verður til töluverður aukatími, til dæmis við að halda sig frá nautn áfengra drykkja, er fyrsta hvötin að nota tækifærið til að vinna aðeins meira. Bilun auðvitað.