Bók Þorsteins Antonssonar frá 1991, Áminntur um sannsögli, sem fjallar ítarlega um móður íslenskra sakamála, hið dularfulla hvarf Guðmundar og Geirfinns Einarssona árið 1974, er býsna fróðleg lesning. Þorsteinn byggir bókina á viðtölum við Sævar Ciesielski auk málskjala, fjölmiðlaumfjöllunar og upplýsinga úr hinum og þessum áttum. Hann dregur enga fjöður yfir hvílíkt klúður málareksturinn var frá upphafi til enda og að ofurkappið á að framleiða einhverja sakborninga til að ljúka málinu hafi gjarnan verið án forsjár.
Þetta er bókin á náttborðinu hjá mér þessa dagana vegna MA-ritgerðarinnar minnar um nafnbirtingar sakamanna í fjölmiðlum áður en dómur gengur í málum þeirra. Guðmundar- og Geirfinnsmálið er í raun fyrsta íslenska sakamálið sem var að mestu leyti rekið á síðum dagblaðanna og bar ekki minna á góma þjóðarinnar þá en Icesave-málið nú, áratugum síðar.
Þorsteinn hefur lagt geysimikla vinnu í heimildaöflun sem er öll til fyrirmyndar og unnið mikið starf áður en þessi rúmlega 400 blaðsíðna bók leit dagsins ljós. Ég er ekki fróðari um þetta nafntogaða sakamál en hver annar, hef séð um það sjónvarpsþætti og lesið frásagnir úr ýmsum áttum. Bók Þorsteins hefur opnað mér nýjan heim og veitt mér aðra og skýrari sýn á málið en ég áður hafði. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að fjórmenningarnir, sem bendlaðir voru við málið og hlutu þunga fangelsisdóma, hafi ekki haft nokkurn skapaðan hlut með hvörf þessara manna að gera.
Sá hluti málsins er varðar Geirfinn, og atvikaðist í Keflavík, hefur að öllum líkindum verið sjálfsmorð eða slys en hvað fyrra hvarfið snertir er líklegast að einhverjir hafi hreinlega ekið á Guðmund, þar sem hann var á leið heim af balli í Hafnarfirði, og falið lík hans kirfilega. Að það hafi verið Sævar og félagar og eitthvað átt sér stað í kjallaraíbúð að Hamarsbraut 11 í janúar 1974 eru ekkert annað en getgátur og tilraun til að koma sök á nokkra krakka í óreglu. Tíu mánuðir liðu á milli mannshvarfanna og í raun ótrúlegt að málin hafi verið hengd saman. Grunurinn sem féll á rekstraraðila Klúbbsins er svo enn eitt dæmið um tilviljanakennt fálm rannsakenda í þreifandi myrkri.
Ólíklegt er að réttar staðreyndir málsins komi nokkurn tímann fram úr þessu en málið hefur einhvern heillandi og dulrænan blæ yfir sér og mun sennilega lengi vel halda toppsætinu á lista óleystra og umtalaðra íslenskra sakamála. En ég mæli með bók Þorsteins fyrir þá sem vilja öðlast þokkalega heildarsýn yfir Guðmundar- og Geirfinnsmál.