Gratulerer med dagen

seytjandi maiÍ dag er þjóðhátíðardagur Noregs, 17. maí, og ég óska gestgjöfum mínum innilega til hamingju með daginn. Hér er 19 stiga hiti og skýjað, fólk fjölmennir í miðbæinn klætt í bunad eins og hefð er fyrir og þambar brennivín eins og enginn væri morgundagurinn. (MYND: Ha, nýja húðflúrið á hægri framhandlegg horfið??? Nei, myndin er frá 17. maí 2011. Hver nennir að taka nýjar myndir þegar gnótt er til í handraðanum? Þarna bjuggum við enn á Overlege Cappelensgate í Stavanger sællar minningar.)

Við lukum prófum á miðvikudaginn og erum í sjöunda himni eftir þann áfanga. Sjaldan ef nokkurn tímann hefur verið jafnunaðslegt að mæta í vinnu og í gær. Skollin er á sjaldgæf fjögurra daga helgi hér í landinu, þjóðhátíð á föstudegi og hvítasunnuhelgi í framhaldinu. Ég er reyndar á bakvakt og mæti á kæjann klukkan 08 í fyrramálið svo ég skynja þetta ekki til fulls en engu að síður er um að ræða sjaldgæfan viðburð í landinu sem er háður því að páskar lendi óvenjusnemma á árinu og þar með hvítasunna.

Það daprasta við þetta er kannski að næsti rauði dagur eftir komandi mánudag er 25. desember.

Athugasemdir

athugasemdir