Góður rómur

islandEkki er annað hægt en að þakka íslenskum fjölmiðlum fyrir að taka hinu opna bréfi mínu, sem lesa má í pistlinum að neðan, með kostum og kjörum. Þrír fjölmiðlar tóku bréfið upp á arma sína, fyrst Egill Helgason á Silfursíðunni, þá Vísir og vefútgáfa DV. Í kjölfarið ræddu svo Hallgrímur Thorsteinsson og Linda Blöndal í síðdegisútvarpi Rásar 2 við mig í kvöld og má hlýða á hér.

Það gleður mig að íslenskir fjölmiðlar eru galopnir fyrir málefnalegri umræðu og íslenskur almenningur lætur ekki sitt eftir liggja að rita athugasemdir eins og sjá má í athugasemdakerfum Silfurs Egils og vefútgáfu DV. Ekki er margt af setningi slegið við Austurvöllinn svo þjóðin má til að taka umræðuna yfir á sitt borð. Hugheilar þakkir og ekki síðri kveðjur.

Fjölmiðlafulltrúi umboðsmanns skuldara, Svanborg Sigmarsdóttir, fyrrum samstarfskona mín af Fréttablaðinu, svaraði bréfi mínu og þakkaði kærlega fyrir. Tók hún þó fram að ekki væri strangt til tekið um formlegt svar frá embættinu að ræða en það er ekki aðalatriðið. Boðin komust til skila.

Ég fagna heils hugar ráðningu Bjarna Harðarsonar í starf upplýsingafulltrúa landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. Ljóst er að þarna fer maður sem skirrist ekki við að senda frá sér gnótt upplýsinga en ég var einmitt í hópi þeirra fjölmiðlamanna sem fékk í hendur hinn fræga tölvupóst Bjarna að kvöldi 10. nóvember 2008 þar sem hann hugðist senda aðstoðarmanni sínum nett drull yfir Valgerði Sverrisdóttur og biðja hann að áframsenda öllum fjölmiðlum frá nafnlausu netfangi. Ekki var upplýsingafulltrúinn nýi sleipari í tæknimálunum en svo að hann sendi upphaflega plottið á alla fjölmiðla landsins sem auðvitað tóku við upplýsingunum eins og fjölmiðla er siður. Hérna má lesa hnyttna frétt Jóns Hákonar Halldórssonar, barnasálfræðings, blaðamanns og fyrrum starfsbróður míns, um þessa sérstöku upplýsingagjöf Bjarna.

En nú geng ég til hvílu.

Athugasemdir

athugasemdir