Við óskum Íslendingum til sjávar og sveita gleðilegra páska og vonandi hefur fólk það almennt gott í fríinu. Við fengum fína sendingu frá Islandsfisk á pálmasunnudag, lifrarpylsu, rúgbrauð, flatkökur, bjúgu og eitt rammíslenskt páskaegg. Þau hjónin aka um Noreg fyrir jól, páska og einu sinni á sumrin og maður pantar af heimasíðunni áður. Mjög þægilegt þar sem þetta er miklu ódýrara en að panta til dæmis frá nammi.is á Íslandi þar sem maður fær svo feitan reikning eftir á fyrir aðflutningsgjöldum frá norska tollinum. (MYND: Þetta er viðurstyggilegasta páskakanína sem fundist getur á gjörvöllu lýðnetinu, þökk sé Free Pet Wallpaper-eitthvað. Vonandi hafa börn ekki aðgang að svona löguðu.)
Hér hefur verið meira og minna sólbaðsveður nema á skírdag og föstudaginn langa. Ég er í dyravörslu á kránni Munken föstudags- og laugardagskvöld og fer svo aftur í páskafrí á páskadag. Ég sé dálítið eftir því að hafa tekið að mér Munken þar sem ég hef mikið dálæti á þeim stað. Þar er alltaf tveir fyrir einn á vodka og bjór frá 19 til 23 nema á laugardögum og heimilisleg stemmning. Ég er svolítið að eyðileggja þetta fyrir mér með því að fara svo að vinna þarna en við erum svo sem hvort sem er að flytja inn í Sandnes 1. maí og þá taka við nýir uppáhaldsbarir.
Komandi flutningar eru orðnir lífseig og þægileg mantra hérna á heimilinu. Komi okkur til hugar að fara að stússa í einhverju í garðinum eða innandyra er viðkvæðið alltaf það sama: ‘Æ, við erum hvort sem er að flytja,’ og málið er dautt. Það firrir okkur þó því miður ekki ábyrgð á að koma trénu, sem ég sagaði niður í fyrravor, á ruslahauga. Það hefur legið í bútum í garðinum síðan, átti alltaf að verða eldiviður en svo hættum við nánast að kveikja upp eftir að varmadælan kom til sögunnar. Enginn veit sína ævina…
Gleðilega páska og vonandi eru allir iðnir við hvers kyns óhollustu um páskana, til þess eru þeir og jólin. Eins þakka ég fjölda afmæliskveðja sem bárust hér á síðunni, með SMS-skeytum og í tölvupósti um síðustu helgi. Mætti halda að maður ætti vini og ættingja.