Gjörsamleg ofneysla fjölmiðla

lyklabordÞað var býsna snúið verkefni klukkan 12:00 – 12:10 í dag að horfa á síðustu spurningarnar á blaðamannafundi rannsóknarnefndarinnar í beinni hjá RÚV, hlusta með hinu eyranu á hádegisfréttir Bylgjunnar og renna um leið yfir nýjustu fyrirsagnir á Vísi og Mbl auk þess sem nýjasta perlan í glæpasagnaflóru landsins, hrunskýrslan, var opin í öðrum glugga á skjánum. Ég er enn eftir mig.

Annars ætla ég ekki að bera í þann rétt rúmlega bakkafulla læk sem umfjöllun um þessa ágætu skýrslu er og verður næstu vikur. Ég las ágripið fremst í henni í snarhasti rétt áður en blaðamannafundurinn hófst og sýnist nefndin hafa unnið fyrir kaupinu sínu. Frekari lestur bíður að mestu þar til fram yfir MA-ritgerð, ekki að ég ætli að fara að liggja yfir þessari sorgarsögu, maður veit núna helstu atriðin og ég hef enn ekki rekið mig á neitt í skýrslunni sem kemur beinlínis á óvart.

Ýmsir fengu nett á baukinn í framsögum allra ræðumanna blaðamannafundsins og ég hef það ekki í mér að vorkenna neinum þeirra aðila þótt ég teljist nú seint illgjarn maður. Nú er að sjá hvort þetta fæði af sér einhverjar ákærur, jafnvel dómþing hjá landsdómi sem enn hefur ekki réttað hér á landi. Landsdómur Dana hefur meiri reynslu og á að baki fjögur eða fimm mál, þeirra eftirminnilegast þegar Erik Ninn-Hansen dómsmálaráðherra var ákærður fyrir brot gegn innflytjendum árið 1995. Þá leit engin smáræðis rannsóknarskýrsla dagsins ljós, 6.000 blaðsíðna doðrantur kenndur við hæstaréttardómarann Mogens Hornslet. Okkar nefnd náði að koma gjaldþroti alls landsins fyrir á þriðjungi af þeim síðufjölda sem hlýtur að teljast stutt og hnitmiðað.

Athugasemdir

athugasemdir