Geysir – bistro og bar

‘Bjóddu ástinni á Geysir á Valentínusardaginn…’ segir í auglýsingu frá téðum veitingastað sem birtist í Fréttablaðinu á laugardaginn, sem einmitt var Valentínusardagur. Fyrir nú utan það að innflutningur þessarar amerísku peningaplokkshátíðar er ekki eitthvað sem hérlend öldurhús ættu að stæra sig af er botninum náð, og verðskuldar sæti í klósetti vikunnar með æðsta láði, þegar aðstandendur Geysis sjá ekki sóma sinn í að beygja nafn staðarins í texta auglýsingarinnar. Það hlýtur að liggja tiltölulega ljóst fyrir að í þolfalli verður Geysir að Geysi og rétt væri að segja ‘Bjóddu ástinni á Geysi á Valentínusardaginn…’.

Svo stingur þessi óbjóður í augun að það nær næstum því að skemma fyrir mér minninguna um ágætan kvöldverð sem ég naut ásamt kvendýrinu þarna fyrir austan á fögru vorkvöldi í apríl 2007. Auglýsingar eru alveg sér á báti í málfræðihryðjuverkum og mesta skömmin sú að prófarkalestur fjölmiðla nær yfirleitt ekki til þeirra þar sem þær berast margar hverjar tilbúnar frá auglýsingastofum sem fæstar virðast hafa metnað í að fjárfesta í þokkalegum prófarkalesara þar sem þó æva skyldi. Sorglegt.

Athugasemdir

athugasemdir