Getur elsti Íslendingurinn verið látinn?

logicAlltaf finnst mér sérstakt að sjá fyrirsagnir á borð við Elsti Íslendingurinn látinn en eina slíka er nú að finna á vef Mbl. Þetta sér maður auðvitað alltaf annað slagið, elsti maður Japans látinn, elsta kona Brasilíu og svo framvegis. Orðalagið stenst þó varla og hlýtur eiginlega að vera rökfræðilega ótækt.

Á því augnabliki sem viðkomandi einstaklingur safnast til feðra sinna eftir langa lífdaga hlýtur óneitanlega annar aðili að taka við titlinum elsti Íslendingurinn. Þar með getur elsti Íslendingurinn í raun aldrei verið látin manneskja (nema öll þjóðin farist skyndilega). Sá sem lést hlýtur á dauðastundinni að verða fyrrverandi elsti Íslendingurinn en auðvitað væri það óskaplega óþjál fyrirsögn: Fyrrum elsti Íslendingurinn látinn. Kannski væri meira vit í að skrifa Nýr elsti Íslendingur í fyrirsögn, annars bý ég því miður ekki yfir neinni töfralausn á þessum vanda.

Athugasemdir

athugasemdir