Áramótin í Amsterdam voru býsna ánægjuleg lífsreynsla og best af öllu að komast í svona fínt frí eftir algjöran metmánuð í yfirvinnu í desember. Ég endaði í 91 yfirvinnutíma og þverbraut þar með allar yfirvinnureglur arbeidsmiljøloven svo freklega að varðar sennilega dauðarefsingu. En hvað getur maður sagt svo sem, það er bara vitlaust að gera í bransanum um þessar mundir.
Öll flug í þessari ferð voru með Norwegian, ég er að hugsa um að hætta að notast við SAS að svo miklu leyti sem ég get. Mér finnst þeir ekki áreiðanlegir, það er mjög óþægilegt að fá símtal með eins dags fyrirvara um að flugið manns hafi verið fellt niður. Þeir fara hvort sem er á hausinn þegar þriggja ára gálgafresturinn þeirra frá því í nóvember er úti svo það er meira vit í að setja peningana sína í eitthvert flugfélag sem er hugsanlega að fara að gera góða hluti til framtíðar.
Við lentum í Amsterdam á tíunda tímanum að kvöldi sunnudagsins 30. desember eftir hálftíma millilendingu í Ósló. Eins og ég hef skrifað um áður er andrúmsloftið svo ólíkt í Noregi og Hollandi að það er nánast óskiljanlegt að það sé ekki nema rúmlega klukkustundar flug á milli þessara tveggja heima. Mér líður alltaf eins og glæpamanni þegar ég er nýlentur niður frá, búinn að panta gin og tónik á fyrsta bar og barþjónninn spyr hvort ég vilji einfaldan eða tvöfaldan. Er maðurinn að biðja um að láta hirða af sér vínveitingaleyfið?? hugsa ég sem er enn með hugann hérna í Noregi þar sem er bannað með lögum að selja tvöfaldan drykk af sterku áfengi á bar (ef ekki með lögum þá með einhverjum lögreglusamþykktum eða tilmælum eða einhverju, það er alla vega bannað).
Veðrið var milt og þægilegt, átta stiga hiti og ferskur andvari, skyggni ágætt. Hótelið sem við völdum að þessu sinni, Best Western Leidse Square Hotel, var látlaust, vel staðsett og ódýrt. Við vildum auðvitað helst vera á okkar fasta samastað, Krasnapolsky við Dam Square, en höfðum ekki vit á að panta nægilega snemma. Líkt og Reykjavík stútfyllist Amsterdam af gleðiþyrstum ferðalöngum um áramótin og líklegast vorum við bara heppin að þurfa ekki að gera okkur tjald og svefnpoka að góðu. (MYND: Kvöldverðurinn á Zuid Zeeland. Ég valdi skyrtuna sem varð fræg á einni nóttu í brúðkaupsveislunni okkar í sumar til að undirstrika hátíðleika kvöldsins.)
Ég ákvað að láta reyna á hollenskunámið af Taalthuis.com, bauð gott kvöld í afgreiðslunni og tilkynnti að ik heb een kamer gereserveerd með tilheyrandi skrolli á géinu. Daman féll fyrir þessu, spurði um nafn og rétti mér skráningareyðublað. Natuurlijk svaraði ég um hæl þegar hún sagði eitthvað sem ég held að hafi örugglega þýtt að ekki mætti reykja á hótelinu en sprakk svo á limminu þegar hún tók að ræða málin frekar og neyddist til að skipta yfir í ensku. Fékk samt mikið hrós fyrir hollenskuna mína sem verður mér hvatning til frekara náms. Við tókum það rólega þetta fyrsta kvöld, litum í G&T á herberginu og fórum tiltölulega snemma að sofa til að hafa orku í áramótin. Það hefði maður nú ekki gert fyrir tíu árum.
Gamlársdagur rann svo upp bjartur og fagur og við lögðum fljótlega í gönguferð um göturnar kringum Leidseplein-torgið en þar finnst varla sá bar sem ég hef ekki neytt áfengis á síðustu tólf árin, Bulldog og Pancake House þar sennilega efstir á blaði. Höfuðtilgangur leiðangursins var hádegisverður, næstsíðasta máltíð ársins og skilyrði að umfang hennar yrði í því jafnvægi að nægði út daginn en jafnframt yrðum við aðframkomin af hungri fyrir hátíðarkvöldverðinn á Zuid Zeeland (sjá síðasta pistil). Fyrir valinu varð ágætur ítalskur staður sem ég man því miður ekki nafnið á en maturinn var góður og karafla með einum lítra af hvítvíni hússins dugði til að skola honum niður. Þar með var maður kominn í gírinn.
Eftir nokkra bari hentum við okkur upp á hótel og smeygðum okkur í ævintýragallann með vænan skammt af Bombay-gini á kantinum en sá áfengi drykkur sem skákar þeim guðaveigum hefur enn ekki komið fram á sjónarsviðið að mínu mati. Þaðan tókum við svo leigubíl á Zuid Zeeland en rás atburða þar má lesa allt um í pistlinum hér fyrir neðan.
Við gengum frá Herengracht, yfir síkin eftir Leidsestraat og inn á Leidseplein rétt fyrir miðnætti. Ég hefði persónulega heldur viljað vera á Museumplein á miðnætti en þar koma að jafnaði 40.000 æpandi vitleysingar saman á miðnætti á gamlárskvöld og fagna nýju ári undir augliti Van Gogh-safnsins, Rijksmuseum og listasafns Amsterdam-borgar, Stedelijk Museum. Þangað var þó fulllangt fyrir okkur gangandi og erfitt að treysta á samgöngur vegna manngrúa á götum úti en almenningssamgöngukerfið í Amsterdam hættir klukkan 20:00 á gamlárskvöld. (MYND: Núna: Arineldur, edrúmennska og olíujarðfræði, klausturlíf næstu mánaða.)
Ég læt þetta fjögurra mínútna langa myndskeið sem spannar tímabilið 23:58 til 00:02 tala sínu máli en um það bil í miðjunni má heyra þegar lýðurinn telur niður síðustu tíu sekúndur ársins 2012 og fagnar svo ógurlega. Farið var að rigna þegar þarna var komið sögu og greinilega dropi á linsunni hjá mér mestallt myndbandið en stemmningin ætti að skila sér ágætlega.
Þetta voru fín áramót og gaman að upplifa Amsterdam á þessum árstíma en ég hef eingöngu verið þar að sumarlagi fram að þessu. Ljóst er að ég á eftir að lifa lengi á þessum minningum, sérstaklega núna þegar ég sit og les jarðfræði á annarri helgi í þurrki við snarkandi arineld og tíu stiga frost úti. Ég væri satt að segja alveg til í einn gin og tónik, jafnvel tvo.