Geitungabú brennt að nóttu

p8190122Í Hænsa-Þóris sögu segir af því er Hænsa-Þórir brenndi inni Þorkel Blundketilsson og var stefnt á Alþingi fyrir ódæðið. Ég skil nú að hluta til hvernig Þóri leið þar sem ég brenndi inni allt að tvö þúsund einstaklinga í nótt. Þeir voru þó allir gul- og svartröndóttir með eiturbrodd enda geitungar allir með tölu.

Þetta hófst allt með því að við uppgötvuðum bú á stærð við fótbolta utan á húsinu fyrir tveimur dögum og var stærð þess slík að ég beið bara eftir að fá rukkun um aukafasteignagjöld frá Mosfellsbæ enda má segja að fasteignin hafi stækkað umtalsvert við þessa andstyggilegu viðbót. (MYND: Geitungabúið taldist nánast fasteign út af fyrir sig.)

Skipti því engum togum að við ákváðum að gera brennu eina mikla að nóttu enda sofa þessi skaðræðiskvikindi þá alla jafna í híbýlum sínum. Hálfur lítri af 95 oktana bensíni var sóttur til Olíufélags Íslands hér í bænum og kyndill einn mikill útbúinn úr gardínustöng. Hér má sjá myndskeið er lýsir undirbúningi aðfararinnar.

Um niðdimma nótt skiptum við svo liði og veittum hinum eldfima vökva yfir búið. Í Njálu segir af því er Njáll kallaði út úr Bergþórshvoli til brennumanna og spurði:



Eld gerið þér sveinar ok hvárt skal nú búa til seyðis?

Fyrir svörum varð Grani Gunnarsson og mælti þessi fleygu orð:



Svá mun þat, enda munt þú ekki þurfa heitara at baka.



Geitungarnir mæltu hins vegar ekki orð af vörum en fuðruðu upp sem skógar í Kaliforníu um þurrkatímann eins og sjá má á þessu myndskeiði sem CNN hefur þegar falast eftir að fá að sýna öðrum til viðvörunar. Varð reyndar af svo mikill bruni að nálægur trjágróður stóð um tíma í ljósum logum og varð undirritaður að grípa til forláta duftslökkvitækis sem fylgdi innbrotaviðvörunarkerfi hússins og þekja hálfan garðinn kemískum efnum. Dugði það þó til þess að ráða niðurlögum eldsins en ekki er vitað hvort gróður muni þrífast á svæðinu næstu árin. Brann þó búið til kaldra kola og má þar með segja að tilgangurinn hafi helgað meðalið.

Athugasemdir

athugasemdir