Gamli maðurinn og bankinn

ripÞað var upplífgandi að lesa úttekt helgarblaðs DV upp úr rannsóknarskýrslu Páls Hreinssonar þar sem ítarlega var fjallað um hvernig Glitnir, Kaupþing og Landsbankinn gerðu skipulega út ‘þjónustufulltrúa’ og ‘ráðgjafa’ til að hafa fé af eldri borgurum með því að ljúga þá fulla. Í skýrslunni eru birtir tölvupóstar milli siðblindra vanvita í bönkunum þar sem þeir skiptast á aðferðum til að narra fólk með því að ljúga því að hringt sé úr því útibúi þar sem viðkomandi er eða var í viðskiptum.

Gamla fólkinu var svo ráðlagt að leggja allt sitt sparifé inn á peningamarkaðssjóði í stað innlánsreikninga og helst færa það af innlánsreikningum yfir í sjóðina sem logið var að væru algjörlega án áhættu en þegar upp var staðið töpuðu margir aleigunni. Vildu sparifjáreigendur ekki færa fé sitt yfir var spurt hvort þeir væru bilaðir eða ekki með öllum mjalla svo ég vitni í Helga Hjálmsson, formann Félags eldri borgara, sem DV ræddi við.

Fjölskylda 87 ára gamals manns sem lést eftir að hafa misst aleiguna í hendur Kaupþings sagðist hafa farið á fund stjórnenda bankans til þess að reyna að fá fjármálagjörningnum hnekkt eftir að blóðsugur bankans hirtu af honum aleiguna. Í skýrslu rannsóknarnefndar segir að stjórnendurnir hafi glottandi sagt fjölskyldunni að gleyma því bara að fara í mál, það væri tapað fyrir fram. Þau greiddu því skuldina, sem eftir stóð, og létu kyrrt liggja.

Gaman væri að heyra frá Finni Sveinbjörnssyni bankastjóra hvort þessir sömu stjórnendur séu enn starfandi innan bankans og, sé svo, hvernig hann rökstyðji það. Sennilega á sama hátt og hann rökstuddi afskrift 800 milljóna kúluláns sjálfs sín frá Icebank.

Drullan í rannsóknarskýrslunni er svo þykk að sennilega trúa því fæstir hvað í raun var að gerast í bönkunum. Þó gengur þjóðfélagið sinn vanagang, enginn gerir neitt, enginn er ákærður og bankarnir halda áfram að eignast ótal fasteignir eftir allar blekkingarnar.

Manni var illa brugðið við þennan lestur og ég segi það bara hreint út að þessum drullusokkum, sem lögðu sig í framkróka við að ljúga fé út úr almenningi og eldri borgurum, á að smala saman á Austurvelli 17. júní og skjóta þá alla með tölu. Fjallkonan getur svo flutt hátíðarræðu sína á eftir. Ég skal vera á fremsta áhorfendapalli með popp og kók.

Athugasemdir

athugasemdir