Nú er stutt í að ég geti farið að láta til mín taka á pólitískum vettvangi hér í Noregi en fram undan eru okkar fyrstu sveitarstjórnarkosningar sem fara fram 11. og 12. september. Norðurlandabúar hafa kosningarétt í slíkum kosningum hafi þeir verið búsettir í landinu næstliðinn 30. júní og aðrir útlendingar eftir þriggja ára samfellda búsetu hér. Stórþingskosningar krefjast hins vegar ríkisborgararéttar.
Þessu til jarteikna barst okkur kosningaskírteini (n. valgkort) með póstinum í dag. Það þótti mér mikil stund. Á korti þessu fær væntanlegur kjósandi upplýsingar um hvert hann mætir á kjörstað, í hvaða kjördeild hann fer, hvaða röð hann þarf að standa í og ég veit ekki hvað. Á skírteininu er strikamerki sem væntanlega er lesið rafrænt á staðnum auk þess sem gild skilríki þurfa að vera meðferðis. Norsk formfesta og reglusemi í hnotskurn.
Sveitarstjórnarkosningar eru tvískiptar, kosin er bæjarstjórn (n. kommunestyre) annars vegar en hins vegar fylkisþing (n. fylkesting) sem er æðsta stjórnvald fylkisins, í þessu tilfelli Rogaland. Það síðarnefnda virðist einkum fjalla um málefni efri menntastiga, vegamál og almenningssamgöngur (mætti reyndar standa sig aðeins betur hvað vegamálin snertir).
Dálítið gaman að komast á blað sem kjósandi í Noregi, það verður í fyrsta sinn sem ég greiði atkvæði um annað stjórnkerfi en íslenskt. Sá böggull fylgir skammrifi að ég þarf þá að fara að skoða eitthvað hverjir eru í framboði og hvað þeir þykist ætli að gera komist þeir að kjötkötlunum. Hér vottar ekki fyrir kosningabaráttu enn þá, meirihluti landsmanna rétt að skríða úr sumarfríi og ekki minnst á kosningar. Á Íslandi væru allir farnir að hnakkrífast í Silfri Egils og almennt berast á banaspjót í flestum fjölmiðlum. Hin annálaða værð Norðmanna teygir sig greinilega inn á öll svið samfélagsins.