Fyrstu dagar í Noregi

stavanger1Jæja, það er eins gott að sérstakur saksóknari er önnum kafinn við að sinna Sigurði Einarssyni Kaupþingsmanni og tilboðum hans um yfirheyrslur í Lundúnum. Ég þætti sennilega þokkalega grunsamlegur á bæ hins sérstaka núna eftir að hafa, í einni og sömu vikunni, bæði skipt um kennitölu og flutt lögheimili mitt til útlanda. Það er kannski ekki alveg áreiðanlegt að segja að ég hafi skipt um kennitölu en ég er alla vega búinn að panta mér eina glænýja sem berst með póstinum eftir tæpar þrjár vikur. Hún verður meira að segja einum staf lengri en sú gamla. (MYND: Miðbær Stafangurs er mikið fyrir augað, gömul hús, snyrtileg höfn og steinlagðar götur og torg.)

Kennitala er forsenda allra athafna hér í Noregi, maður fær ekki einu sinni að kaupa sér símafrelsi án hennar sem verður að teljast stórfurðulegt, hvað þá að stofna bankareikning eða gera nokkuð sem krefst einhverrar skráningar. Vonir standa þó til að við fáum að kaupa okkur líkamsræktarkort, það kemur í ljós á morgun. Í þrjár vikur erum við sem sagt í rauninni ekki til opinberlega. Ég hef haft það bölvanlegra svo sem.

Ég þverbraut loforð mitt um daglega pistla á fyrsta degi. Í ljós kom að tölvan mín getur ekki tengst þráðlausa netkerfinu hér í íbúðinni. Eftir ráðfærslur við sérfræðinga er líklegasta skýringin talin sú að utanáliggjandi netkortið á þessum sjö ára gamla forngrip les ekki svokallaðan WPA-staðal, eingöngu WEP en hinn fyrrnefndi ríkir hér. ELKO getur vonandi bætt úr þessu á morgun en þangað til rita ég frá frúartölvunni. Gert er ráð fyrir að þessir upphafshnökrar leysist á næstu dögum.

Fall er fararheill segja menn enda byrjaði ferðin í tómu rugli í Leifsstöð. Við mættum á slaginu 05:00 til að innrita okkur í flugið sem var klukkan 08:00 og ætluðum að eiga góðan tíma á bar og í fríhöfn. Strax við vigtun farangurs, sem var 68 kg eða 28 kg yfir lögleyfðu 40 kg samanlögðu hámarki okkar, gerði innritarinn þau mistök að rukka okkur um öll 68 kílóin í yfirvigt, 84.000 krónur. Þetta þurfti að bakfæra og til þess þurfti hún að vera í burtu í um það bil 15 mínútur á meðan risastór hópur farþega í flug til Óslóar klukkan 07:00 hlóðst brúnaþungur upp fyrir aftan okkur. Rétt yfirvigt var 39.000 krónur en að lokum sleppti hún okkur með 20.000 vegna óhagræðisins og lét mig hafa sæti við neyðarútgang með fótarými en flugvélar eru, sem alkunna er, hannaðar fyrir dverga.

Þá tók við öryggisleit sem var framkvæmd þannig að ég beið bara eftir því að þurfa að taka úr mér nýrun og renna þeim í gegn. Fyrir utan að fara úr skóm og þurfa að tæma alla vasa hefur sú krafa nú bæst í hópinn, síðan ég flaug síðast árið 2007, að taka þarf öll raftæki upp úr töskum og gegnumlýsa þau þannig. Þetta tókst og langþráður gin & tónik beið glampandi á barnum. Mikið sakna ég gamla barsins niðri undir glerþakinu sem var í gamla daga. Manni fannst ferðin ekki hefjast fyrr en eftir nokkur glös þar. Ég veit að margir eru mér sammála um þetta. Leifsstöð hafði ákveðinn sjarma sem mér finnst hún hafa glatað.

Við lentum í Stafangri, fjórðu stærstu borg Noregs, í glampandi sól og stórfínu veðri…eins og við fórum úr á Íslandi. Elías Kristján Elíasson sótti okkur á flugvöllinn eins og ráðgert var. Þetta er gullfalleg borg, skógi vaxin, umkringd stórkostlegu fjalllendi og dreifð um fjölda eyja með bláum sundum á milli. Smábátar og skútur alls staðar líkt og tjaldvagnar og hjólhýsi á Íslandi. Norðmennirnir eru sniðugir og þótt hér sé mikið skrifræði eins og á Íslandi eru stofnanir skipulagðar þannig að ekki þurfi að heimsækja margar til að ganga frá grundvallaratriðum. Á einum og sama staðnum, Skatteetaten, er sótt um flutning lögheimilis, kennitölu og skattkort. Sama manneskjan sá meira að segja um þetta allt saman. Málið leyst og hægt að skella sér beint niður í miðbæ og út að borða.

stavanger2

Íbúðin er flott, hvorki of né van, og stendur við litla gróðursæla götu í Forus sem er hverfi í Stafangri og á landamæri að nágrannasveitarfélaginu Sandnes þar sem áður var höfuðvígi ullariðnaðar í Noregi svíki barnaskólanámið mig ekki. Flugvöllurinn er hins vegar í Sola þar sem höfðinginn Erlingur Skjálgsson bjó í kringum árið 1000 og Snorri segir frá í Heimskringlu. ‘Öllum kom hann til nokkurs þroska,’ skrifar Snorri um Erling. (MYND: Elías Kristján Elíasson, okkar helsti leiðsögumaður fyrstu vikurnar og góður félagi til 12 ára.)

Hér er allt morandi í Íslendingum á efnahagsflótta, við hittum tvo á bar í gærkvöldi auk fjölskyldu Ella en þau eru hér þrjú og buðu okkur í grill á pallinum hjá sér í gær. Ekki vantaði veðrið til að standa í slíku. Mér er sagt að fjöldi Íslendinga hér hafi vaxið úr 2.200 í tæplega 5.000 síðustu tvö ár. Ég sel það ekki dýrara en það var keypt en finnst það ekkert ósennilegt.

Norðmennirnir taka okkur mjög vel og margir hafa boðið okkur velkomin heim aftur, spyrja hvað við höfum yfirleitt verið að þvælast þetta. Það er góð og gild spurning sýnist mér…núna. Loksins fengum við að heyra Stafangursmállýskuna sem við höfðum óttast svo mjög. Hún er vissulega frábrugðin Óslóarframburðinum sem við þekkjum svo vel af námskeiðunum tveimur hjá Mími en alls ekki óskiljanleg, dálítið meira niður í hálsinn og oft harðari, hvor for er hér borið fram ‘kú for’ og flest önnur spurnarfornöfn fá sömu meðferð. Ég hef, þegar þetta er skrifað, haldið mig við þá ófrávíkjanlegu reglu mína að tala bara norsku og grípa ekki til enskunnar, það er auðvelt og freistandi að stökkva þangað en lengir aðlögunina um marga mánuði. Betra er að gera sig að fífli, fá góðlátleg bros nokkrum sinnum á dag og vera í staðinn kominn með norskuna á beint strax í sumar en að vera enn þá að berjast við einhvern blending af norsku og ensku um næstu áramót. Íslendingum er engin vorkunn að læra norsku, bæði tungumálin eru vestnorræn á meðan danskan og sænskan tilheyra austnorrænu fjölskyldunni og standa okkur skrefi fjær. Margra ára dönskunám í grunn- og framhaldsskóla er góður grunnur þótt aldrei hafi ég verið mikill dönskumaður og alls ekki kunnað mig upp á ‘gamlan danskan móð’ eins og amma og hennar samtíðarmenn.

Athugasemdir

athugasemdir