Ég fékk áminningu í athugasemdakerfinu fyrir að segja ekki í smáatriðum frá gráðuninni á sunnudag eins og ég lofaði í kvíðapistlinum á laugardag. Ætlunin var að skrifa um hana í gær en þá datt ég í einhvern félagslegan gír og langaði heldur að skrifa um starfamessu NAV á Íslandi. Núna skal ég segja frá gráðuninni, fyrirgefðu Vala. (MYND: Engin spurning hver er þarna í bestu gunnun sogi-stöðunni/Rósa Lind Björnsdóttir.)
Gráðun á sólskinsdegi er alltaf fyrir góðu. Ég tók 1. dan í karate á sólríkum laugardegi, 31. mars 2007, á Íslandi og eins og ég skrifaði í dagbókina mína þann dag: ‘Aldrei hefur Captain Morgan bragðast jafn-vel og um kvöldið.’ Ekki laug ég því. Nú jæja, þetta gekk eins og í sögu núna á sunnudaginn og ég stóðst 9. gup með sóma. Það er ekkert voðalega erfitt að sýna sæmilega takta í fyrstu beltunum í taekwondo þegar maður er tiltölulega nýbúinn að taka svart belti í karate, þetta eru ekki ósvipaðar íþróttir. Ég þarf samt að huga að ýmsu í framtíðinni.
Roger Otting, 5. dan, yfirþjálfari NTN Stavanger, var aðalprófdómari með fjóra til aðstoðar. Hann hefur ekki verið að þjálfa hjá klúbbnum undanfarið vegna starfsanna en var einn af stofnendum klúbbanna í Sandnes og Sola og þjálfari frá 1990.
Tæknilega hliðin gekk vel. Í taekwondo þarf að gera armbeygjur í gráðunum auk hefðbundinna árásar- og varnartækna og þeim fjölgar eftir því sem litur beltisins dökknar. Svo kom að fræðilega hlutanum sem ég kveið svo mjög vegna lítils lærdóms. Roger byrjaði á að spyrja mig út í muninn á tveimur af grundvallargildum íþróttarinnar. Ég hefði nú kunnað betur við að fá að svara þessu á íslensku. Ég romsaði út úr mér langri útskýringu á norsku sem hann stytti svo niður í eina setningu en gaf mér þó rétt. Afgangurinn snerist um nöfn á spörkum og stöðum sem ég var heppinn með. Kóresk heiti á þessum fyrirbærum eru gjarnan langar romsur á meðan maður sleppur yfirleitt með eitt orð í karate auk þess sem þar er maður ekkert spurður út í þetta á gráðunum. (MYND: Roger Otting rekur úr mér garnirnar í fræðilega hlutanum. Lesa má í senn kvíða og brennivínsþorsta úr svip mínum/Rósa Lind Björnsdóttir.)
Annar veigamikill munur á gráðunum í TKD og karate er hve miklu púðri er eytt í umsögn um hvern einstakan nemanda, kannski mismunandi eftir klúbbum þó. Roger ræddi við hvern og einn í tvær til þrjár mínútur, fór þar rækilega í styrkleika og veikleika í þessari gráðun, hvað hefði batnað eða versnað frá síðustu gráðun og hvað hann óskaði eftir að nemandinn legði áherslu á fyrir næstu gráðun. Ég fékk þá umsögn að ég hefði kraft í tækninni og spörk langt umfram gráðu en á móti kæmi að ég væri mjög litaður af karatetækni á kostnað þeirrar íþróttar sem ég væri að stunda sem er auðvitað rétt. Ég verð að játa að ég hef átt erfitt með að tileinka mér niður-upp-niður-hreyfinguna í TKD sem kemur karatefólki mjög spánskt fyrir sjónir. En þetta verður þá bara áskorun fyrir næstu gráðun sem er upp úr miðjum júní, rétt áður en ég mæti til Íslands í sumarfrí. (MYND: Ég sit andaktugur undir dómi Roger Otting að lokinni gráðun, ákveðinn í að eiga aftur stórleik í sumargráðuninni. The only way is up!/Rósa Lind Björnsdóttir.)
Þetta gekk alla vega ásættanlega í alla staði og ég veit af reynslu að góð fyrsta gráðun er gott veganesti. Við drifum okkur að lyfta eftir létta máltíð og fórum svo beint á barinn. Það er besti staðurinn á sunnudegi í Stavanger!