Fríhelgi og vor í lofti

vorvedurEftir tvær skólahelgar í röð eigum við okkar fyrsta helgarfrí í þrjár vikur. En sú tilfinning að vakna klukkan 11:57 og fá sér fyrsta kaffibolla dagsins í rólegheitum án þess að þurfa að hlaupa út úr dyrunum í vinnu eða skóla og eins gott að njóta þess svo sem kostur er því næsta fríhelgi eru páskarnir sem reyndar eru snemma á ferð í ár. (MYND: Séð norður eftir Gravarsveien í átt að Hana þar sem núverandi heimili okkar er staðsett.)

Ég gaf bílnum frí og rölti niður í City Gym í rólegheitunum þar sem hinni daglegu þjáningu/nautn var sinnt af sönnum vígamóð við drynjandi þungarokk innan um aðra vitfirringa.

Í þessum skrifuðu orðum erum við á leið í kvöldverð á besta indverska stað sem ég hef borðað á fram að þessu, Indian Tandoori við Julie Eges gate hér í Sandnes. Þeir félagar kunna að matreiða vindaloo sem fær alla þarmalengjuna til að loga af kryddi fram á næsta dag og nariyal-súpan á matseðlinum þar er fyrirbæri sem ég get hiklaust mælt með fram í fingurgóma.city gym (MYND: City Gym, musteri þjáningarinnar en annars ódýr og þrælgóð líkamsrækt og opin allan sólarhringinn.)

Sem sagt róleg og þægileg helgi, mikil líkamsrækt, góður matur og vonandi einhverjir klukkutímar yfir námsbókunum fyrir brønnkontroll-fyrirlestur um næstu helgi, þriðju síðustu skólahelgina. Eftir rétt rúma tvo mánuði verður þessu blessaða námi lokið og tilheyrandi prófum. Öll él birtir upp um síðir sagði einhver, sennilega maníusjúklingur.

Athugasemdir

athugasemdir