Fjöldi fyrirspurna hefur borist mér síðustu daga frá lesendum síðunnar, hvort tveggja vinum, fjölskyldu og öðrum, sem hvorugum hópnum tilheyra en lesa mig öngvu að síður, um það hvort ég sé á lífi. Ég hef ekki sett neitt hérna inn síðan síðasta sunnudag en dreg þó andann (það er eins gott að ég er ekki á Facebook, þá væri sennilega búið að senda Hjálparsveit skáta á mig). Ég kann auðvitað að meta umhyggjuna.
Ástæðan fyrir fáum pistlum er mikil vinna. Þannig dagar hafa komið í vikunni sem var að líða að ég fer að heiman fyrir klukkan sjö að morgni og kem heim á ný eftir ellefu á kvöldin. Sé yfirvinna ekki fram eftir öllu kvöldi fer ég auðvitað að lyfta eða mæti í karate, allt eftir því hvaða dagur er. Maður þarf víst að halda sér í formi sjálfur orðið eftir að æskan hætti að sjá um það.
Ég ætla því að taka upp nýtt fyrirkomulag hér á atlisteinn.is og skrifa eingöngu um helgar. Þá geri ég vikuna upp í einum sæmilegum pistli eða tveimur og segi frá því helsta sem á daga hefur drifið eða úttala mig um aðra hluti sem mig langar að segja eitthvað um. Hörðustu lesendur geta þá kíkt í heimsókn á mánudögum og séð hvað er að gerast hjá mér. Komi rólegir dagar og mig langi að greina frá einhverju sérstaklega má allt eins gera ráð fyrir því að ég hendi inn einum og einum pistli í miðri viku, ég hef auðvitað alltaf gaman af að rita texta á íslensku, góð tilbreyting frá norskunni.
Eins og greint hefur verið frá í íslenskum fjölmiðlum undanfarið fundu Norðmenn nýlega sína þriðju stærstu olíulind frá upphafi og er hún talin geta gefið af sér olíu fyrir allt að 24.000 milljarða íslenskra króna næstu áratugi. Þessi gullnáma er staðsett hérna rétt fyrir utan Stavanger og tvær deildir innan NorSea Group fá þann heiður að þjónusta borpallana þarna mestmegnis, Tananger og Dusavik. Báðar eru í Stavanger eða nágrenni. Ég starfa í Tananger og þar er orðið býsna mikið að gera auk þess sem við sinnum einnig höfninni í Risavika, sem er rétt við hliðina á, en þar afgreiðum við stór vöruflutningaskip sem flytja hvort tveggja almennar gámasendingar og vörur tengdar olíubransanum.
Það er því býsna mikið að gera sem er hið besta mál, ég flutti til Noregs til þess að vinna þegar enga vinnu var að hafa lengur á Íslandi…eða litla.
Ég vona að lesendur mínir sýni nýju fyrirkomulagi hér á atlisteinn.is skilning og lesi helgarpistlana þótt ég geti ekki boðið upp á meira eins og er. Vinnan göfgar manninn og ekki veitir af tekjunum á þessu heimili frekar en mörgum íslenskum heimilum.