Ég fékk heimsókn frá franska ríkisútvarpinu í gær. Renaud Candelier, útvarpsfréttamaður þaðan, tók hús á mér skömmu eftir að ég hafði ritað hér ítarlegan pistil um að ég væri veðurtepptur heima hjá mér. Candelier, sem er einfættur og gengur við staurfót, lét sér þó ekkert fyrir brjósti brenna og braust hingað í Mosfellsbæinn eins og ekkert væri (akandi reyndar). (MYND: Hið nafntogaða Louvre-listasafn í París. Mjög umdeilt var þegar McDonald’s opnaði útibú þar í fyrra.)
Ríkisútvarp Frakka hefur sem sagt áhuga á gjaldþroti Íslands og væntanlegum búferlaflutningum fjölda fólks héðan og var tilgangur útsendarans að kanna ástandið nánar. Hann sagðist alls staðar hafa fengið að heyra sams konar álit manna á frjálsræðishetjunum góðu í vinstristjórninni sem öllu ætlaði að bjarga en hefur frá fyrsta degi hokrað í bakherbergjum þings og stjórnarráðs og helst lýst því yfir að vissulega sé hitt og þetta áhyggjuefni og annað þurfi sannarlega að skoða nánar. Fyrir utan auðvitað að berjast með klóm og kjafti gegn væntanlegri þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er furðulegt félagshyggjufólk.
Candelier þótti verðtryggingin merkilegt fyrirbæri og spurði þess sama og hollenskur blaðamaður um daginn, af hverju við létum bjóða okkur þetta. Ég sagði honum að mig ræki ekki minni til þess að hafa verið boðið neitt sérstakt hér á landi undanfarið annað en að taka út minn eigin lífeyrissparnað.
Við ræddum um mótmæli og ég áttaði mig á því að ég sat andspænis fulltrúa margfaldra Evrópumeistara í mótmælum og borgaralegri óhlýðni – Frakka. Hann hafði gaman af því þegar ég sagði honum frá því að gárungar hefðu haft það á orði í búsáhaldabyltingunni að flytja inn nokkur hundruð franska bændur og senda þá á Austurvöll. Þar er komið fólk sem kann að mótmæla af fullum krafti en um leið af fullkominni háttvísi. Ekki minnist ég þess að hafa heyrt mikinn fréttaflutning af táragasi og kylfum á lofti þar suður frá þegar bændur sturta mykju á einhverja hraðbrautina til að mótmæla ákvörðunum í frönskum landbúnaði. Og oft hafa þeir sitt fram. Hvað getur maður gert þegar maður stendur frammi fyrir tonni af saur?
Við ræddum um Sarkozy forseta og stöðuna í blaðamannastétt Frakklands. Það er kreppa hjá Frökkum eins og hér. Sarkozy er ekki vinsæll núna. Breska pressan er dugleg að skrifa um alls konar spaugilegar hliðar á honum sem stundum urðu tilefni pistla hjá mér á Bylgjunni. Til dæmis þegar einhver gróf upp að forsetinn hefði setið fyrir í sápuauglýsingu fyrir Bónus í Frakklandi þegar hann var tíu ára af því að pabbi hans vann hjá markaðsdeild verslunarinnar. Fréttamaðurinn klykkti út með því að forsetahjónin kæmu þá bæði úr fyrirsætubransanum.
Það var gaman að spjalla við Candelier og við kvöddumst með virktum. Hann hvetur Íslendinga til að láta stjórnvöld ekki vaða yfir sig á skítugum skóm, láta ekki deigan síga í Icesave-málum og fara ekki í Evrópusambandið ef við teljum okkur ekki græða neitt á því! Er hægt að orða þetta skýrar?