„Fornjóts bleika fimbulkalda vofa…

kuldi…fjötruð hlekkjum þúsund ára dofa/þú hefur drjúgast drukkið Íslands blóð.Þessar fallegu ljóðlínur séra Matthíasar Jochumssonar um hinn forna fjanda, hafísinn, komu upp í huga minn þegar ég steig út í svalt morgunhúmið klukkan 05:40 í morgun. Bifreiðin héluð sem borgarísjaki og Esjan grá í vöngum. Og ekki nema 28. september! Það er ljóst að spár ýmissa aðila úr byggingarverktakageiranum ætla að rætast. Þeir segja að veturinn verði kaldur…mjög kaldur, og eiga þá ekki bara við í veðurfarslegum skilningi.

Þetta gerði það að verkum að björgunarleiðangur var gerður út síðdegis til að bjarga verðmætum í hús úr kartöflugarðinum. Sveittir tveir tímar fóru í að taka upp nokkur kíló af premier, gullauga og þeim rauðu. Grösin voru fallin en uppskeran virðist hin besta og hefur nú verið skoluð og er að þorna í bílskúrnum. Á morgun verður hún lögð til hvílu í einangraðri og fúavarinni kartöflugeymslu og á, ef að líkum lætur, eftir að duga heimilinu að minnsta kosti til áramóta. Þær stærstu voru bara töluverðir hnullungar þótt við höfum sett niður frekar seint, rétt fyrir miðjan júní.

En nú er sem sagt hætt við leiðindavetri sýnist mér á þessum snemmbúnu frostum og eins gott að landinn sé við ýmsum hremmingum búinn. Ekki það að ég ætli mér að hljóma svartsýnn en kuldinn er mun fyrr á ferð en í fyrrahaust man ég glöggt og þó nú mun meira sem hvílir á herðum hins almenna borgara landsins en þá var. Nú dugir ekkert annað en óbilandi bjartsýni og trú á að ljós leynist við enda ganganna. Ljós vorsins 2010 þegar við kveðjum þetta Icesave- og skattpínda sker. Guð blessi Ísland. Ekki gerir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn það.

Athugasemdir

athugasemdir