Íbúar Rogaland-fylkis eru í losti þessa dagana vegna mesta fannfergis sem greinst hefur frá upphafi mælinga á mörgum stöðum. Þó er þetta ekkert sem vex íslenskum meðaljóni í augum en taka verður með í reikninginn að hérna snjóar varla á veturna svo 70 cm djúpur snjór telst til meiri háttar náttúruhamfara. (MYND: Sáluhliðið að Gangeren 66 í Sandnes, það fyrsta með áföstum póstkössum.)
Útvarpsstöðin NRK Rogaland tók svo djúpt í árinni að segja að öruggt væri að fimmtudagurinn 13. desember 2012 liði engum núlifandi íbúa svæðisins úr minni. Mér verður hann, og ekki síður gærdagurinn, þó fyrst og fremst minnisverður vegna ótrúlega þreytandi og leiðinlegrar umferðar en í gær sátum við í samtals fjórar klukkustundir og fimmtán mínútur í umferðaröngþveiti á leið til og frá vinnu.
Ætlunin var því aldeilis að hafa vaðið fyrir neðan okkur í morgun svo við vöknuðum tíu mínútum fyrr en venjulega, klukkan 05:10, mættum í City Gym 05:40 og lukum æfingu þar á mettíma. Þaðan var svo ekið á mínútunni 06:30 og munaði minnstu að við lokuðumst inni í Sandnes engu að síður þegar strætisvagn pikkfesti sig í brekku rétt fyrir framan okkur. Með naumindum var hægt að troðast fram hjá honum og eftir nokkur taugatrekkjandi augnablik í viðbót þar sem öll sund virtust lokuð renndi ég í höfn á vinnustað klukkan 07:16. (MYND: Glittir í stofugluggann okkar milli snævi þakinna barrtrjáa. Þar sem rauða serían er (ekki bókaflokkurinn!!).)
Svæðisfjölmiðlar í Rogaland hafa ekki fjallað um annað en snjóinn síðan í gær enda allt samfélagið á öðrum endanum. Flug hefur gengið algjörlega úr skorðum til og frá Sola-flugvelli, tugir skóla eru lokaðir, farsímakerfi sumra símafyrirtækja hafa verið óáreiðanleg og Lyse er með hóp manna á aukavöktum af ótta við að rafmagn bregðist. Lögregla og sjúkraflutningafólk hafa mátt sitja í bílaröðum án þess að komast spönn frá rassi og hefur lögreglan leitað til björgunarsveita sem hafa flutt tugi vélsleða úr fjalllendi til byggða en slík farartæki eru alla jafna til lítils gagns á lálendinu þar sem fyrst og fremst rignir á vetrum. Í þessu innskoti Stavanger Aftenblad má skoða þrjú myndasöfn með myndum frá hinum almenna guðhrædda vegfaranda.
Nánast alls staðar hér á svæðinu er um að ræða mestu snjókomu síðan mælingar hófust og þykir mest til koma í Sviland hérna rétt fyrir ofan Sandnes þar sem aldrei hefur mælst 70 sentimetra snjóþekja síðan farið var að mæla þar árið 1925. Hér í bænum er snjórinn sá mesti síðan farið var að stunda mælingar árið 1980, 50 sentimetrar, en það er þó aðeins sjö sentimetrum yfir gamla metinu sem reyndar er ekki mjög gamalt, frá 2009.
Sem barn öslaði ég oft og mörgum sinnum dýpri fönn en hér er á leið til og frá skóla og eru mér sérstaklega minnisstæð árin 1982 til 1986 en upp úr því fór mjög að draga úr fannfergi á höfuðborgarsvæði Íslands, sennilega vegna hinnar alræmdu hnattrænu hlýnunar sem umhverfisverndarsinnum er svo ofarlega í huga. (MYND: Séð upp götuna. Bílskúrinn okkar og bílastæðið fyrir framan. Notum það ekki mikið næstu dagana.)
Þetta er þó tiltölulega þreytandi þegar maður er kominn úr æfingu með það og nú er öldin önnur þegar maður þarf að komast til daglegs brauðstrits. Í gamla daga var bara fínt að fá frí í skólanum vegna veðurs og geta sofið í rólegheitum í skammdeginu.
Kannski er snjókoman upphafið að heimsendi Maya-indíána sem gert er ráð fyrir á föstudaginn í næstu viku.