Forholdsmessighetsprinsippet og langur skítur

rniJæja, þá veit maður hvað meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins heitir á norsku. Þjált og skorinort hugtak eins og þeirra frænda okkar er von og vísa. Ég skemmti mér þessa dagana við að læra norska lögfræði og annan þjóðlegan fróðleik á kvöldnámskeiði öryggisgæslunnar PSS sem svo heitir og annast dyravörslu, gæslu á íþróttakappleikjum og tónleikum og fleira nytsamlegt hér í Stafangri. Hugsanlegt starf hjá fyrirtækinu er hugsað sem aukavinna samhliða sjúkrahúsþrifunum þótt ég sé nú á mörkunum að nenna slíku brölti yfir hásumarið. En auðvitað þarf maður að vinna upp hálfs árs atvinnuleysi í gamla landinu. (MYND: Róni á miðbæjartorginu, ekki ósvipaður Tryggva Gunnlaugssyni, ágætum útigangstækni Reykjavíkurborgar.)

Ítarlegt fíkniefnanámskeið URO patruljen (fíkniefnadeild norsku lögreglunnar) fylgdi í kjölfar lögfræðinnar og kom þar fram á syngjandi norsku að fíkniefnum væri gjarnan ‘stukket opp i rasshula’ sem er skemmtilegt og allt að því rammíslenskt orðalag. Í heildina er þetta fróðlegt og ég er að fara í próf í öllum þessum fræðum auk skyndihjálpar og brunavarna annað kvöld. Í versta falli fell ég.

Ég get ekki skotið mér hjá því að brydda upp á einu orðalaginu enn sem fram kom í þessari snilld allri þar sem verið var að fjalla um neyðarvörn og neyðarrétt. Reglurnar eru þær sömu og í íslensku hegningarlögunum og við sjálft lá að sömu dæmi væru tekin og í íslenskum lögfræðikennslubókum (enda norskur venjuréttur sá fyrsti sem gilti hér á þjóðveldisöld). Á glæru kennarans blasti þetta við: ‘Lang skitur og man må bryte seg inn i hytta…’

Þarna var ég alveg mát og varð starsýnt á þetta ‘Lang skitur’. Loksins kom mér í hug að maðurinn væri að slá um sig með einhverri gammelnorsk og þarna væri lýst einhverri þekktri norskri veðurtegund, langa skítnum, sem verstu íslensku páskahret væru sem sólríkur júlímorgunn við hliðina á. ‘Meiri naglarnir þessir Norsarar að kalla hríðarbyl langan skít,’ hugsaði ég og fylltist skömm yfir því að við Íslendingar ættum ekkert svar við þessu (og eigum við þó þekkt vestfirsk ofsaveður á borð við fjallsperrubyl, steinballarsteyting og stóra sunnan).

Þegar kennarinn kom að þessum ósköpum á glærunni reyndist þar um að ræða ‘lang ski-tur’, það er að segja langa skíðaferð, og hafði fórnarlambið í dæminu neyðst til að brjótast inn í sumarbústað til að forðast bráðan bana í kalsaveðri. Langi skíturinn fór þarna fyrir lítið en mér varð hugsað til gamallar tilkynningar Ríkisútvarpsins um ístru-flanir á Norðurlandi sem þulurinn hafði séð út úr orðinu ís-truflanir.

Athugasemdir

athugasemdir