Fjórðungur reykbindindis að baki

camelÞetta er allt að koma, nú eru ekki nema 30 ár í að ég byrji að reykja aftur en það mun einmitt gerast á 66 ára afmælisdaginn minn, 30. mars 2040. Vorið 2000, nánar tiltekið mánudaginn 29. maí, drap ég í síðustu sígarettunni, Camel lights, með harmkvælum. Á tíu ára reykferli hafði ég auk drómedarastautanna góðkunnu (sem eru ranglega nefndir eftir kameldýri (lat. Camelus bactrianus) en það hefur tvær kryppur og því litla skírskotun í það sem prýðir pakkningar vindlingsins góðkunna) sogið Winston, Marlboro og lengi vel Lucky Strike sem Halldór Laxness nefndi Hamingjuhögg í einhverri ágætri smásögu.

Megnið af ferli mínum sem reykingamaður fór í að hætta að reykja. Ég tuggði bragðvont nikótíntyggjó, fékk mér brjóstsykur og fór meira að segja í nálastunguaðgerð til einhverra kínverskra glæpamanna á Skólavörðustíg sem fullyrtu að eftir hálftíma liti ég aldrei aftur við sígarettu meðan ég lifði. Hefðu þeir reynst sannspáir væri ég löngu dauður enda næsta sígaretta aðeins einum og hálfum tíma undan. Ég hefði fengið tvö karton fyrir andvirði þess sem ég greiddi fyrir þessar skottulækningar og hefði betur farið þá leiðina.

Undir vor 2000 var ljóst að þetta gekk ekki lengur. Ég var þá búinn að sitja í tvo mánuði yfir BA-ritgerð niðri í kjallara í Garðabænum og sparaði ekki við mig tóbakið á meðan. Fram undan var nýtt starf, prófarkalestur á Morgunblaðinu. Af tíu ára reynslu reykingamannsins þekkti ég vel þann jarðfasta vana sem tóbakinu er svo lagið að kalla fram hjá besta fólki, til dæmis tengingu reykinga við vissar aðstæður, svo sem vinnustað. Ég sá fljótt að meðan ég starfaði sem næturvörður hjá Securitas væri borin von að reyna að drepa í, næturvaktin byrjaði ekkert nema að undangenginni rettu og kaffibolla. Gott og vel.

Nýtt upphaf á Mogganum varð mér hins vegar að tækifæri og ákvað ég fljótt að hefja ekki störf þar sem reykingamaður, þá væri vitað hvernig færi. Ég taldi því í mig kjark, fór í Háaleitisapótek og keypti risakassa af Nicorette-tyggjói með sítrusbragði sem var á tilboði. Sat ég svo fram á nótt með meint kameldýr, sem í raun er þó drómedari, milli varanna og grét framtíðina. Klukkan 03:34 að staðartíma drap ég í þeirri seinustu og glitruðu tár á hvörmum.

Ég hef ekki snert tóbak síðan svo eitthvað virkaði í þessu. Forhertum reykingamanni dugði þó ekki alveg þetta rof vinnustaðavana heldur þurfti gulrót með. Hún var þessi: Ég ætla ekki að hætta að reykja, ég ætla bara að sleppa því að reykja í 40 ár. Svo tendra ég í þéttum nikótínfylltum skratta og fylli mig af tjöru og öðrum bætiefnum á ný. Þessi hugsun bjargaði mér yfir erfiðasta hjallann og alla leið yfir í reyklaust líf. Þá skildi ég galdurinn og múgsefjun nikótínmettaðs hugar. Það sem fór alltaf með mig öll þessi skipti sem ég var að hætta að reykja var skelfingin sem fylgdi þeirri hugsun að reykja aldrei aftur. Því fylgdi andlegur niðurgangur sem alltaf endaði eins – með glóandi naglann milli varanna í sæluríki tóbaksplöntunnar.

Þetta var því ekki flóknara en að taka bara stutt hlé frá reykingum, í mínu tilfelli 40 ár. Sú hugarleikfimi bar mig svo langt að sennilega hefði ég getað sleppt helvítis tyggjóinu sem var eins og að éta upp úr öskubakka. Og mér reynast þessi 40 ár langt í frá óyfirstíganleg, fjórðungurinn er strax búinn og restin nánast formsatriði.

Ætli þeir á reyklaus.is þekki þessa tækni?

Athugasemdir

athugasemdir