Óhætt er að fullyrða að nokkrar leiðir bjóðist til að ná tali af mér og ekki minnkar úrvalið þegar ég á bakvakt áttundu hverja viku, þá er ástandið eins og myndin hér til hliðar ber með sér; persónulegi síminn, bakvaktarsíminn og almenni vinnusíminn. Þrjú rafeindaundur frá Espoo í Finnlandi (alla vega eru höfuðstöðvar Nokia þar, símarnir eru væntanlega smíðaðir í Kína eða Taívan). (MYND: Þetta er ömurleg mynd hjá mér, dimm og í lélegum fókus. En ég lýsti hana og breytti andstæðuhlutfallinu (e. contrast) í Picture Manager og framkvæmdi með því mína fyrstu rafrænu myndvinnslu…fyrir utan að breyta stærð og þjappa myndum sem fara á síðuna en það er nauðaómerkileg aðgerð.)
Bakvaktarsíminn hefur aldrei hringt á minni vakt fyrr en það gerðist einmitt klukkan 12:06 í gær. Ég hafði aldrei heyrt hringinguna og vissi ekkert hvaðan þessi hávaði barst. Tilefni hringingarinnar var að einhver var ekki að rækja starf sitt nákvæmlega á þeim tíma sem það átti að gerast og var því fljótlega kippt í liðinn með einu símtali af minni hálfu. Varla í frásögur færandi.
Hins vegar er full ástæða til þess að segja frá því hve óþægilegt það er að fara leiðar sinnar með þessa símahrúgu í vösunum, það er hreinlega ómögulegt og jafnast fullkomlega á við að ganga um með Motorola 5000 ef einhver man eftir því ‘netta’ sköpunarverki Motorola frá 1994 eða þar um bil. Ef ég hef alla kösina í sama vasanum hitti ég alltaf síðast á minn eigin þegar ég er að reyna að fiska hann upp. Enn verra er þegar einhver þeirra hringir og þarf að finna þann rétta áður en hringjari gefst upp á biðinni. Verst er þó að jakkinn dregst til undan þunganum og verður allur skakkur á mér. Það er mjög á hvörfum hvort bakvaktarálagið nægi sem skaðabætur fyrir þessa áþján áttundu hverja viku.
Farið er að votta fyrir síðsumri hér í Stavanger. Það er mjög skemmtilegur árstími. Maður finnur svo sem ekki mikið fyrir styttum sólargangi, hér verður dimmt á nóttinni allt árið, ekki mjög lengi í maí og júní þó. Erfitt er að benda á í hverju breytingin felst en ágúst er einhvern veginn aðeins frábrugðinn mánuðunum þremur á undan. Haustið er svo hálfgert happdrætti, hér getur rignt alveg svakalega í september og október en eins geta þeir verið nokkurs konar sumarframlenging eins og í fyrra þegar haustið var alveg einstaklega fallegt. Ekki það að maður hafi notið þess mikið á kafi í blóði og innyflum á bullandi sláturvertíð hjá Nortura en við áttum nokkrar sallafínar helgar og mitt síðasta sólbað átti sér stað sunnudag einn í lok október. Spennandi að sjá hvort það takist aftur…