Fjar-hamskipti

SimarIIIÉg steig það stóra og erfiða skref í gær að skipta um síma sem var svo sem búið að vera í bígerð lengi. Aðgerðir á borð við þá að skipta út einhverjum hlut sem ég hef verið með í höndunum daglega í mörg ár eru mér afskaplega þungbærar og alveg sérstaklega tók það á að svíkja lit eftir 15 ára flekklaust samlífi með Nokia en aðeins einu sinni áður hef ég ekki átt Nokia-farsíma og það var minn fyrsti, Ericsson GH-337.

Ég fékk mér sem sagt Nexus 5, nýjasta tæknirothöggið frá Google, að ráði og fortölum Ríkharðs Brynjólfssonar, tæknistjóra og hýsils atlisteinn.is. Svar hans, þegar ég greindi honum frá því í tölvupósti á dögunum að minn næsti sími yrði Nokia Lumia 1025, var ósköp skýrt en að vanda var það frekar það sem hann sagði ekki, sem æpti á mig í dimmri þögn, en það sem stóð í tveimur skorinorðum línum hans. Ég hef rætt hér áður um tæknifasisma í tengslum við Ríkharð og til að gera langa sögu frekar aðgengilega í stuttri frásögn hafði hann sitt fram á ný.

Ég hef auðvitað oft talað í síma um ævina en nú ber svo við að ég get í fyrsta sinn talað við símann sjálfan og hann svarar mér, meira að segja með kvenmannsrödd. Hvað ætli allir hinir símarnir mínir hefðu sagt, hefðu þeir mátt mæla? Mjög póstmódernísk spurning. Það sem ég kveið þó mest var auðvitað að nota síma án „fýsískra“ hnappa, það finnst mér verulega þungbært. Sú hugsun treður sér sífellt fram að síminn hljóti að verða útkámaður í fingraförum, þetta er uppeldislegt félagsmótunaratriði sem mun krefjast margra ára jógaþjálfunar að losna við og ég nenni því ekki.

Alls konar annað er hroðalegt líka, vekjaraklukkan er gerræðisleg frekja sem heimtar að móta reglu um hvenær hún hringi og fylgja henni svo bara. Það gengur alls ekki. Órjúfanlegur hluti af þeirri athöfn minni að fara að sofa kvöldið fyrir virkan dag eða vinnudag er að stilla vekjarann á símanum (nógu erfitt var að fara yfir höfuð að nota farsíma í stað vekjaraklukku og tók mörg ár). Einnig finnst mér SMS-skilaboð glata að miklu leyti sjarma sínum við að vera ekki lengur ein stök boðskiptaeining heldur birtast sem strolla af skilaboðum milli viðkomandi aðila og þrátt fyrir alla sína tækni býr Nexus-síminn ekki yfir neinum eðlilegum símhringitóni sem er auðvitað hrein firra.

Þetta verður sem sagt erfitt umskiptaferli sem hófst formlega í gærkvöldi. Þar sem nú er ekki hægt að vippa gamla símakortinu bara yfir í nýja símann eins og venjulega, þessi sími notar kort sem er varla greinanlegt með berum augum, beið mín auðvitað það gríðarlega verkefni í morgun að slá alla símaskrána úr gamla símanum yfir í Word-skjal, fjórar þéttvélritaðar síður, og stofna svo hvern og einn aðila upp á nýtt í Nexus-símanum sem vill helst fá litningasýni og augnhimnuskann úr viðkomandi með. Þann jákvæða punkt má þó finna við þetta ferli að auðvitað er óvitlaust að eiga alla símaskrána sína í Word-skjali týni maður síma sem ég hef reyndar ekki lent í enn þá á 18 ára GSM-ferli (7, 9, 13) en nú langar mig af tilfinningaástæðum að greina stuttlega frá öllum mínum GSM-símum hingað til. (MYND: Símaminjasafnið, frá Ericsson til Nexus.)SimarII

Þetta hófst allt í nóvember 1996 með Ericsson GH-337 sem ég keypti smyglaðan frá Svíþjóð á 26.000 krónur (brotið vonandi fyrnt núna). Þriggja línu einlitur skjár, loftnet og öflugur málmrammi kringum símann sem gerði hann svo þungan að allur fatnaður hékk skakkt væri síminn hafður í vasa. Við það varð þó að búa þar sem beltisklemma á rafhlöðu reyndist skammgóður vermir, þyngd tækisins gerði það einfaldlega að verkum að það datt af rafhlöðunni sem hékk ein eftir í beltinu og málið dautt. Í þennan síma fékk ég mitt fyrsta SMS sumarið 1997 en áttaði mig ekki á því hvað þetta píp átti að fyrirstilla og sá skilaboðin ekki fyrr en tæpu ári seinna sem skildi ekki milli lífs og dauða þar sem þau voru frá samstarfsmanni hjá Securitas sem hafði verið erlendis og kynnst þar þessari fáheyrðu tækni, að senda texta um loftin blá án þess að nota fax eða umslag.

Í apríl 1999 var komið að tímamótum á stærð við þau sem Nexus-síminn færði með sér í gær en þá fjárfesti ég í mínum fyrsta Nokia-síma, merki sem ég hafði fram að því eingöngu tengt við gúmmístígvél. Um var að ræða mesta tækniundur þess tíma, 6150, sem kostaði 37.000 krónur í Elko. Þarna var kominn fyrsti „dual band“ síminn, læs á hvor tveggju, 900 og 1800 MHz-kerfin, og þar með hægt að nota hann í Bandaríkjunum líka, landi sem alltaf þarf að vera með sín eigin kerfi í öllu. Aldrei fór ég nú samt með 6150-símann þangað en notaði hann þó í sex ár og einn mánuð samfleytt. Þetta var aláreiðanlegasti farsími sem ég hef átt, hverrar krónu virði og ég grét söltum tárum þegar ekki var annað hægt en að leggja hann til hinstu hvílu í maí 2005. Þá var skjárinn að hluta dottinn út og aðeins fimm takkar virkir enn þá, í raun gat ég bara hringt í fólk ef það var í símaskránni (í símanum sem sagt, ekki bókinni). (MYND: Fyrsta símakortið mitt og það sem hýsti í upphafi númerið 898-8030. Kortið er í 6150-símanum í símaminjasafninu í dag.)SIM-kort

Þá tók við hinn högg-, vatns- og vindþétti Nokia 5210 sem naut þess heiðurs að vera fyrsti síminn minn með innbyggðri myndavél sem mér fannst auðvitað fáránlegt enda óraði mig ekki fyrir að hálfum áratug síðar væri símaeiginleikinn nánast orðið aukaatriði á myndavélinni en lífið er sem betur fer fullt af undrum. Þetta var fínn sími að öllu leyti en örlög hans urðu þó svipleg, einhver innvortis gagnakapall í honum gaf sig og hann var með öllu ónothæfur. Í minni hans var þá fullt af myndum sem ég vildi gjarnan bjarga svo ég sendi hann með sjúkraflugi til Nokia í Finnlandi með atbeina Hátækni í Síðumúla…eða Ármúla og bað Finnana að bjarga myndunum fyrir mig og svo mættu þeir henda símanum. Þeir byrjuðu á að þurrka allt út úr símanum og reyndu svo að gera við hann. Sendu hann að lokum til baka með orðsendingu um að því miður væri hann ónýtur. Ég gleymi aldrei símtalinu frá framkvæmdastjóra Hátækni sem hófst á orðunum „Ég er búinn að kvíða þessu símtali í allan dag…“.

Daginn sem við fluttum til Noregs, 11. maí 2010, gaf Rósa mér svo forláta Nokia 2730-síma sem hún keypti í fríhöfninni. Hann liggur nú hérna á skrifborðinu hjá mér við hlið arftaka síns með eina sprungu í skjánum, dálítið máður á hliðunum en annars í fínu lagi. Á hann hef ég tekið meira en 1.000 myndir þessi tæpu fjögur ár sem hann hefur verið í þjónustu minni, talað helling í hann og sent milljón SMS og ég á eftir að sakna hans verulega fyrst um sinn. Til allra heilla fer hann þó ekki lengra en í símaminjasafnið mitt og þar er aldrei á tali.

Athugasemdir

athugasemdir