Við kvöddum Flatey nánast með tárin í augunum og sigldum áfram með Baldri til Brjánslækjar þar sem hin stálgráa sænska bifreið okkar beið. Þaðan ókum við eina verstu vegi landsins næstu þrjá tímana og er fullkomlega ljóst að ég mun þurfa að ræða við Kristján Möller samgönguráðherra um suðurfirði Vestfjarða. Hefði það ekki verið fyrir það að ég fékk að aka fram hjá fæðingarstað Matthíasar Jochumssonar, Skógum í Þorskafirði, hefði ég sennilega látist úr malarvegum fyrstur manna.
Að lokum grillti í Búðardal og fór ég með ótal bænir í huganum. Þarna fékk ég þá vondu hugmynd að kaupa mér ný rúðuþurrkublöð. Reyndar virtist hún góð þar til í ljós kom að pappahylki með verðmiðanum 3.690 krónur innihélt eingöngu eitt blað. Hitt kostaði svo jafnmikið. Þar sem ég taldi mig þurfa að máta blöðin við mín fjarlægði ég annað þeirra af bifreiðinni og bar það kampakátur inn í verslunina. Við þetta braut ég af klaufsku minni stykki sem heldur blaðinu við arminn og þá varð kraftaverk ævi minnar. Jón Indriðason bassaleikari, rauðhærður riddari á jafnrauðri Toyota-bifreið, hlaðinni lifrarpylsu, kallaður Nonni í daglegu tali, renndi í hlaðið. Nonni þessi var af einhverjum ástæðum með hið kunna lím tonnatak í bifreiðinni og veitti mér nú óspart af því.
Skiptir nú engum togum að Nonni límir þurrkuhaldarann saman fyrir mig á meðan ég sinni þeirri aumu iðju að lepja kaffi hjá Búðdælingum og þótti svo sem ekki gott. Lýkur skiptum okkar með því að ég lýg hann fullan af því að 160 kílómetra akstur sé til Hólms þess er kenndur er við stykki. Síðar kom í ljós að þeir voru einvörðungu 76. Er skömm mín ævarandi.
En líður nú og bíður og mörg hundruð kílómetrum síðar berumst við til Dalvíkur. Var þar svo mannmargt að við urðum að gera okkur að góðu að bregða tjaldi í kirkjugarði bæjarins. Hefði annað okkar brátt orðið léttara hefðum við ef til vill mátt gera okkur fjárhús að góðu.
En nú hófst drykkjan. Blandaði ég mér þegar gin og tónik í glas og bergði á þeim unaðsnektar. Hlóðum við svo kælitösku vora og hófum göngu um bæinn. Skilaði hún því senn að við rákumst á Jón Óttar Ólafsson afbrotafræðidoktor og fulltrúa og konu hans Þóru Steinu Pétursdóttur sem leggur stund á félagsráðgjöf við Klepp. Hófst þegar ótæpileg drykkja. Eigi man ég svo glöggt hvernig þeirri lyktaði en ljóst er að ég vaknaði í tjaldi mínu daginn eftir. Guð er sem sagt til.
Þá hófst drykkjan fyrir alvöru. Við röltum niður að höfn klukkan 10:52 og hófum þegar ótæpilega neyslu fiskjar og afurða þeirrar tegundar. Átið var ólýsanlegt en veður enn ólýsanlegra. Vart þarf að geta þess að við átum á okkur gat af ýmsu fiskmeti og er mér minnisstæð hrá hrefna Úlfars Eysteinssonar sem dýft var í japanska soya-sósu og reyndist bragðið himneskt. Dalvíkingar eiga mikinn heiður skilinn fyrir að halda Fiskideginum úti og vil ég veg hans sem mestan. (MYND: Afbrotafræðingur, félagsráðgjafi og afkvæmin. Þau áttu aðeins tvö orð fyrir mig: Félagsleg ráðgjöf!!!)
Eftir þetta þömbuðum við brennivín með ólafsfirskum sjómönnum á tjaldstæðinu og ræddum mjög ýmsar framburðarmállýskur svo sem harðmælgi og raddaðan framburð. Skemmti síðuritari sér einkar vel við að spreyta sig á því að ræða um bland í poKa (harðmælt) sem hann heyrði í N1-skálanum og kók í bauK sem Norðlendingar þvertaka fyrir að viðgangist. (MYND: Úlfar kóngur Eysteinsson sneiðir spendýr hins salta sjávar.)
Þessari guðdómlegu helgi lauk með Papaballi þar sem Dan Cassidy þandi rafræna fiðlu sína og fór mikinn í verkinu The Devil went down to Georgia sem hlýða má á hér og lauk þar með Fiskidögum. Næst: Mývatn og Ásbyrgi.