Finnlandsdvölin 2003 – in memoriam

helsinkiÍ dag eru átta ár síðan ég hélt til Helsinki sem Nordplus-skiptinemi og lagði þar stund á blaðamennsku fyrir fréttaritara erlendis við þann hluta félagsvísindadeildar Háskólans í Helsinki sem nefnist Svenska social- och kommunalhögskolan. Til að gera langa sögu stutta var þessi vorönn árið 2003 drykkja út í gegn og kom ég heim reynslunni ríkari eftir að hafa kynnst og þambað hið 80 prósenta sterka eistneska vodka Hundijala Vesi (ísl. Hundvatn). Ég flaug til Kaupmannahafnar með Iceland Express á öðrum starfsdegi þess flugfélags og þaðan áfram til Helsinki. Svona hljómar seinni hluti dagbókarfærslu minnar föstudaginn 28. febrúar 2003: (MYND: Hinn hollenski bekkjarbróðir minn Joris Thomassen bar aldrei barr sitt eftir að hafa stundað nám með mér í Helsinki. Myndin er tekin í Eurovision-partýi 24. maí 2003.)

Ég borðaði á Kastrup og las svo fram að fluginu til Helsinki klukkan 15:40. Ég lenti þar um 18:40 að staðartíma. Sá sem átti að sækja mig var ekki kominn svo að ég fékk mér kaffibolla og hringdi í pabba til að láta hann vita að ég væri lentur. Svo kom drengur að sækja mig, Rússi að nafni Amtav eða Amitav. Kom þá í ljós að ég fæ ekki herbergið við Hietaniemenkatu sem ég átti að fá heldur bý ég í úthverfinu Viiki sem er níu km frá miðbænum. Samgöngur eru þó góðar hér og lítið mál að komast hvert sem er með neðanjarðarlest, strætó og sporvögnum. Ekki var þó spennandi að dröslast alla þessa leið með 35 kg af farangri. Það er vel kalt, 16 stiga frost en stillt. Ég bý í fimm manna sambýli með Frakka, Ítala og tveimur spænskum stelpum. Eftir kynningar var ég strax dreginn í partý á næsta stúdentagarð með allra þjóða kvikindum og stóð stíf drykkja vel fram á nótt. Fyrir 50 evrur fékkst símanúmer með 40 evru inneign. Númerið mitt er 040-870-7247.

Ég var nú búinn að gleyma símanúmerinu, verð að játa það. Önnin var býsna hressandi, við vorum 16 eða 17 í bekk, flestir frá Svíþjóð en tveir Hollendingar líka, Spánverji, tveir Finnar og ég sem fulltrúi Íslands. Námskeiðið var helgað erlendum fréttariturum og því lítið sótt af Finnum sjálfum en dvöl í erlendu ríki var í sjálfu sér hluti af náminu.
helsinkiii
Ekki liðu margar vikur þangað til ég var búinn að átta mig á því að lítið vit var í að versla í Alko en svo heitir ríkið í Finnlandi. Verðið þar var nánast það sama og á Íslandi og það var ekkert ókeypis þótt þetta hefði verið 2003. Ég hafði nurlað saman fjármagni fyrir dvölinni þarna með því að vinna þrjú störf heima á Íslandi frá haustinu 2002, fékk einhvern 100.000 kall í styrk frá blaðamannaháskólanum í Árósum í Danmörku og þar með var það upp talið. Ódýrt brennivín var því forsenda fremur en valkostur. (MYND: Afrakstur fyrstu Tallinn-ferðarinnar 21. mars kominn í hús.)

Þar með hófust miklar smyglferðir mínar til Tallinn í Eistlandi en þangað var skottúr með ferju yfir Finnska flóa, kannski fjögurra tíma sigling hvora leið að vetrarlagi á meðan flóinn var ísi lagður. Ég fór gjarnan með Hafísinn eftir Matthías Jochumsson á þilfarinu og grét af þjóðerniskennd. ‘Hvar er hafið, hvar er beltið bláa…’ og svo framvegis. Áfengisverslanir í Tallinn eru ævintýraheimur út af fyrir sig. Þar er gestum og gangandi boðið upp á að smakka áfengið áður en það er keypt og voru lítil plaststaup um alla verslun í þessum tilgangi. Framkvæmdi ég þarna ítarlega bragð- og verðkönnun á ýmsu áður en ég keypti 10 hálfs lítra pela af Hundijala Vesi sem var á sérstöku tilboði á 99 eistneskar krónur pelinn sem hefur verið eitthvað rétt innan við 500 kall íslenskar á þessum tíma. Þetta var fyrsta ferð mín af þremur og farin 21. mars. Tilgangurinn var, samkvæmt því sem ég hef ritað í dagbók mína þennan dag, að afla mikilla birgða af sterku áfengi fyrir 29 ára afmælið mitt sem ég hélt upp á helgina eftir en þá hafði ég ráðgert að fylla allan bekkinn hrottalega (það gekk aldeilis eftir og væri það kvöld efni í sérstakan pistil, það litla sem ég man).

Finnska tollgæslan hefur sennilega verið uppteknari við að fylgjast með fíkniefnasmygli frá Kaliningrad og Pétursborg en eðlilegum flutningi áfengis frá Tallinn og gekk ég því ávallt í land úr ferjunni með fullan bakpoka af brennivíni þessi skipti sem ég fór yfir og gjarnan aðeins í glasi að auki enda barinn freistandi í þessari annars tilbreytingarlitlu siglingu. Síðar á önninni átti ég svo eftir að dvelja níu daga í Tallinn við gerð lokaverkefnis sem fjallaði um væntanlega aðild Eistlands að Evrópusambandinu en þeir gengu til þjóðaratkvæðis um það mál í september þetta ár. Á sama tíma og ég var þarna voru líka mótmæli um allan heim vegna innrásar Bush í Írak sem hófst 20. mars. Þetta var spennandi tími til að stúdera blaðamennsku erlendis og gnótt fróðlegra fyrirlesara heimsótti okkur, einn forfallaðist til dæmis vegna þess að hann þurfti að rjúka til Baghdad daginn sem hann átti að halda fyrirlesturinn.

Annar merkisdagur var sunnudagurinn 16. mars en þá fóru fram þingkosningar í Finnlandi. Fyrstu vikur námsins snerust algjörlega um kosningarnar og var okkur gert að sækja fjölda blaðamannafunda fyrir erlenda blaðamenn í finnska utanríkisráðuneytinu og skila daglega mislöngum fréttagreinum fyrir deadline sem var ekki umsemjanlegt. Þetta var býsna góður skóli og heilmikið stress þegar lætin náðu hámarki rétt fyrir kosningar. Þessar kosningar voru reyndar býsna merkilegar í sögu Finnlands en þetta kvöld tapaði Jafnaðarmannaflokkur Paavo Lipponen fyrir Miðflokki Anneli Jätteenmäki en hinn fyrrnefndi hafði þá setið óhaggaður býsna mörg kjörtímabil. Jätteenmäki varð forsætisráðherra, reyndar bara í þrjá mánuði, en það tímabil voru bæði forseti og forsætisráðherra Finnlands konur og er það fyrsta og eina skiptið sem sú staða hefur komið upp í nokkru lýðveldi í heiminum. Og ég var þarna! (MYND: Með sendiherrahjónunum í höfuðstöðvum YLE.)
helsinkiiii
Finnska ríkisútvarpið YLE er býsna gestrisin stofnun. Kom sú gestrisni meðal annars fram í því að útvarpið bauð bekknum mínum á kosningavöku í höfuðstöðvum sínum að kvöldi kjördagsins. Var þar býsna glæsileg veisla og íslensku sendiherrahjónin þáverandi auðvitað meðal gesta. YLE opnaði bar sinn upp á gátt þetta kvöld og sturtaði brennivíni ofan í gesti sína eins og enginn væri morgundagurinn. Við Jón Baldvin létum auðvitað ekki okkar eftir liggja og gerðum veitingunum hófleg skil að kurteisra gesta hætti. Þarna var auk þess hlaðborð sem svignaði undan hreindýrakjöti og öðrum krásum og mér eru minnisstæð gríðarstór erfðabreytt jarðarber frá Spáni sem voru nánast heil máltíð stykkið (sjá mynd). Andrúmsloftið var rafmagnað og höfðu blaðamenn frá öllum heimshornum í tvö horn að líta þar sem annars vegar voru þingkosningarnar en hins vegar yfirvofandi innrás Bandaríkjamanna í Írak sem hófst svo fimmtudaginn eftir. Bein útsending CNN frá ræðuhöldum George Bush um málið fangaði því athyglina á milli þess sem finnskir stjórnmálamenn komu fram og svöruðu spurningum áður en lokatölur komu í hús. (MYND: Epli djöfulsins, erfðabreytt jarðarber frá Spáni.)
helsinkiiv
Ekki skildu nema 0,2 prósent, eða 6.000 atkvæði, flokka Paavo Lipponen og Anneli Jätteenmäki þegar úrslitin urðu ljós og verður að teljast býsna mjótt á munum hjá fimm milljóna þjóð, munurinn er svipaður og í kosningunni milli Nixon og Kennedy árið 1960 sem þá var það altæpasta sem sést hafði í bandarískum forsetakosningum. Athyglisvert að báðir sigurvegararnir, Richard Nixon og Anneli Jätteenmäki, sögðu af sér síðar á ferli sínum vegna mála sem tengdust stuldi á upplýsingum en Jätteenmäki hafði látið hnupla fyrir sig gögnum úr ráðuneyti Lipponens sem talin voru sýna stuðning hans við innrás í Írak og notaði þau gegn honum í kosningabaráttunni. Þetta komst upp og hún sagði af sér í júní þetta sama ár eftir þrjá mánuði í forsætisráðuneytinu. Sic transit gloria mundi.

Hvað sem allri pólitík líður var þetta skemmtileg og lærdómsrík vorönn í Helsinki 2003. Að lokum má geta þess að allar ljósmyndirnar við þessa grein eru teknar á gömlu filmuvélina mína og færðar í rafrænan búning með svonefndum skanna frá Hewlett Packard. Afraksturinn verður að teljast þrælmagnaður og gefur stafrænni ljósmyndun að því er virðist lítið eftir.

Athugasemdir

athugasemdir