Stavanger er ein gestaborganna í skútukappsiglingunni The Tall Ships Races 2011. Öðrum legg keppninnar. sem hófst í Lerwick á Shetlandseyjum, lýkur hér. Þessu fylgir fjögurra daga hátíð með alls konar tónleikum og rugli á meðan 70 seglskútur af öllum stærðum og gerðum tínast inn í Voginn niðri í miðbæ. Það var mjög tignarleg sjón að sjá öll þessi gömlu og virðulegu skip á Voginum í dag og á þeim þó eftir að fjölga töluvert. (MYND: Miðbærinn um fimmleytið í dag. Statsraad Lehmkuhl er stóra hvíta skipið. Þeir eru ekki lofthræddir sem hafa raðað sér á þvermöstrin eða hvað þetta heitir.)
Flaggskipið og helsta fley keppninnar er óumdeilanlega hið norska Statsraad Lehmkuhl, stærsta þrímastra seglskip heims, sem skráð er í Bergen. Það var í Reykjavík fyrir nokkrum vikum svo einhverjir ættu að kannast við gripinn. Þrettán þjóðir taka þátt í keppninni í ár en áhafnirnar eru af mun fleiri þjóðernum, eða 32, kom fram í máli forstöðumanns keppninnar sem ávarpaði stútfullt miðbæjartorgið í dag.
Dagskrá er í miðbænum frá klukkan 10 næstu tvo morgna en hátíðinni lýkur formlega með mikilli flugeldasýningu klukkan 23 á laugardagskvöld. Skúturnar leggja svo í haf um hádegisbil á sunnudaginn og hefja þriðja keppnislegginn sem liggur til Halmstad í Svíþjóð en þar er endamarkið jafnframt. Búast má við einhverju húllumhæi þar miðað við hve mikið er lagt í þetta hér í Stavanger þar sem keppninni er ekki einu sinni lokið. Fylliraftar!
Ég hef alveg misst af því að heyra af The Tall Ships Races þangað til núna í vor. Hefur keppnin þó verið haldin í áratugi og meira að segja búið að raða henni algjörlega niður fyrir 2012 og 2013. Ég hef lítinn áhuga á sjómennsku, á að baki nokkrar ferðir með Herjólfi, eina siglingu frá Helsinki til Stokkhólms og ekki mikið meira, en það er býsna gaman að fara niður í bæ og kíkja á þessa gripi. Hérna er hægt að skyggnast gegnum vefmyndavél Stavanger Aftenblad sem er á húsþaki við Voginn og sjá hvaða skip liggja við bakkann hverju sinni. Það er meira að segja hljóð líka. (MYND: Hátíðargestir hlýða á ávarp borgarstjóra. Hann bað um mínútuþögn í minningu látinna. Þetta er í henni. Það var dálítið magnað að heyra ekki bofs þarna.)
…hæ hó hó og rommflaska með!