Ferð án fyrirheits

lokadagurNú skulda ég hundtryggum lesendahópi mínum feita afsökunarbeiðni á pennaleti undanfarin dægur. Reyndar er leti þó ekki um að kenna heldur búferlaflutningum á þriðjudagsmorgun. Föstudagur til þriðjudags fyrir viku fór að miklu leyti í að fylla 40 feta gám af öllu okkar veraldlega glingri. Því lauk með einkar hressandi 22 klukkustunda törn aðfaranótt þriðjudagsins þegar kominn var tími á að senda gáminn af stað. Ástkærum bróður mínum, Kára Snæ Guðmundssyni, eru færðar bestu þakkir fyrir hjálp með bókaskápa og aðra þyngri hluta búslóðarinnar. (MYND: Það var á við ár í ræktinni að rýma húsið!)

Á fimmtudag var flogið til Akureyrar til að kveðja fjölskyldu konunnar og taka netta skorpu af ‘the traditional Icelandic fyllerí’ eins og það var orðað í hinni ágætu kvikmynd Stuttur Frakki hér um árið (gengið út frá að Frakkinn vísi til persónu af því þjóðerni en ekki flíkur með sama nafni og því haft með F). Þetta var býsna gaman, Akureyringar eru frábært fólk að heimsækja, allir fjallhressir og kunna þá list að drekka brennivín. Ekki skemmdu stórkostlegir tónleikar með Nýrri danskri á hinum svokallaða Græna hatti á laugardagskvöldið.

Reyndar áttum við að vera farin heim þá en þar sem innanlandsflug lagðist óvænt niður skelltum við okkur bara í ríkið. Í dag (sunnudag) var svo stormað á Bílaleigu Akureyrar enda átti ég pantaðan sendiferðabíl hjá útibúi þeirrar sömu bílaleigu hér í bænum klukkan 15 vegna Sorpuferða og flutninga á húsgögnum sem við lánum hingað og þangað. Einhverjir höfðu hugsað á svipuðum nótum því á leigunni áttu menn nákvæmlega eina bifreið til, forláta Ford Fiesta dísel, beinskiptan. Hann var sprækari en ég hefði búist við af bifreið þess orkugjafa og skilaði okkur til höfuðstaðarins klukkan 15:07 að staðartíma. Fór þetta á innan við hálfum tanki þrátt fyrir að ég hafi staðið dósina alla leið.

Allt gekk svo nokkurn veginn samkvæmt áætlun og þessar línur eru skrifaðar í pásum frá þrifum á öllu húsinu. Gefandi. Nú er nánast eina áhyggjuefnið sem ég sé á brautinni hvort flogið verði frá Keflavík til Stavanger á þriðjudagsmorguninn eða hvort við þurfum að fara aftur til Akureyrar og fljúga þaðan. Eins og ég kann vel við þennan vinalega höfuðstað Norðurlands kýs ég flugvöll með almennilegum bar og fríhöfn þegar ég yfirgef land og þjóð. Megi máttarvöldin gefa mér að ég sitji með glas af gini og tónikki í Leifsstöð á þriðjudagsmorgun.

Talandi um áfengi er ég að lenda í vandræðum með það. Ég á sem sagt of mikið. Hér eru tvær næstum fullar rauðvínsbeljur, tæp flaska af Tanqueray-gini og hálfur vodkapeli. Svo lengi sem ég verð ekki fullur allan daginn á morgun gæti ég orðið að gefa eitthvað af þessu. Sjaldgæft en aðkallandi vandamál í mínu lífi.

Ég get ekki látið þess ógetið að við sáum uppfærslu Þjóðleikhússins á Íslandsklukkunni á föstudag fyrir rúmri viku. Ég get hiklaust mælt með þeirri skemmtun. Sé litið fram hjá því að verkið er tæpar fjórar klukkustundir að meðtöldum tveimur hléum sem voru tekin á barnum (af hverju eru ekki barir í fleiri bíóum en Smárabíói, þetta svínvirkar í leikhúsunum!) er það hressilegt og glettilega vel leikið. Ingvar E. Sigurðsson og Ilmur Kristjánsdóttir skila persónum Jóns Hreggviðssonar og Jóns Guðmundssonar af krafti og listfengi (á maður ekki að skrifa leikhúsgagnrýni svona?) auk þess sem verkið er tónlistarveisla þar sem hinar gráfornu Pontusrímur eldri eru skrýddar silkimjúkum söngvaklæðum og kastað fram af groddalegum kór húskarla og dusilmenna. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið (ekki það að ég sé hræddur um að skemma endinn fyrir einhverjum, Laxness skilaði bókinni af sér undir lok síðari heimsstyrjaldar) en bendi fólki á að demba sér í leikhúsið. Sæti á svölum er ákjósanlegt fyrir þessa sýningu. Vá, mín fyrsta leikhúsrýni lítur dagsins ljós!

Þetta er síðasti pistillinn sem ég rita hér á Íslandi. Ég nota tækifærið og kveð alla sem ég náði ekki að kveðja eða mættu ekki í kveðjuteitina 1. maí. Íbúðinni sem við leigjum til 1. september fylgir nettenging svo ég ætti að verða tengdur þar frá fyrsta degi. Því má búast við daglegum pistlum frá Noregi frá og með þriðjudegi og eins og fyrri daginn verður ekkert slegið af í óvæginni þjóðfélagsgagnrýni í bland við venjulegt bull úr mér. Við gerum svo ráð fyrir að verja hér jólum og áramótum næstu ár svo Elvis hefur ekki yfirgefið bygginguna algjörlega.

Passið skerið fyrir mig, ég mun sakna þeirra sem það verðskulda.

Athugasemdir

athugasemdir