Fear and Loathing in Sirdal

sirdaliiNýliðin helgi markaði tímamót í lífi okkar hjóna þar sem nú teljumst við loksins hafa tekist á hendur tradisjonell norsk hyttetur, þó án þess að setja punktinn yfir i-ið með tradisjonell norsk mat. Sometimes death is better, eins og Stephen King gerði að ódauðlegum frasa í riti sínu um dýragrafreit nokkurn árið 1983. Eins var það stórmerkilegt að þurfa ekki að aka lengra en 100 kílómetra inn til landsins til að fara úr 10 stiga hita niður í tvö stig og snjó. Þá verð ég að nefna þá tilfinningu sem fylgdi því að fara í fyrsta sinn á milli norskra fylkja án þess að það væri eingöngu til að millilenda í Ósló eða Bergen á leið til eða frá Íslandi.

Sirdal er klárlega náttúruperla, maður þarf varla áfengi til að koma auga á það, og umhverfið einstakt. Það var eins og hér ætti landið heima, eins og Laxness skrifaði svo eftirminnilega einhvers staðar í Íslandsklukkunni. Svona á lífið að vera að mínu mati, Bubbi á fóninum, naut á grillinu, brennt vín í glasinu, hvíld, afslöppun og eitt það fegursta sem norsk náttúra býður upp á.sirdal (MYND: Grillið, bíllinn, gljúfrið.)

Høyfjells-hótelið stóð um 200 metra frá okkur og þangað var tekinn göngutúr á laugardagskvöldið svona rétt til að prófa barinn þar. Eitthvert risafyrirtæki var með jólahlaðborð á staðnum og milli G&T-glasanna gerðum við úttekt á veigum hlaðborðsins, svona fyrst það stóð svona skammt frá barnum. Frábært roastbeef og sænski yfirþjónninn var svo á barmi taugaáfalls yfir sjálfum sér og Eistunum sínum (allt starfsfólk hótelsins er meira og minna frá Eistlandi nema ein sem var frá Póllandi og téður þjónn) að honum var slétt sama um át okkar.

Sjálfur bústaðurinn kom mér stórkostlega á óvart. Eins og ég þekki norska þjóðarsál hafði ég gert mér eftirfarandi mynd af dæmigerðum sumarbústað landsmanna: Hálfhrunið greni án rafmagns og rennandi vatns, rúm úr steinsteypu og klósettið hringlaga gat í miðju stofugólfinu. Mér er það bæði ljúft og skylt að játa fordóma mína. Okkar bústaður var eins og nýr, gervihnattasjónvarp, hiti í gólfum og klósett sem….já, maður vildi eiginlega bara vera sem mest á því. Eini staðalbúnaður Íslendinga sem ekki var fyrir hendi þarna var heiti potturinn enda slíkt talið stappa næst geðsýki í augum þjóðar sem hitar allt með rafmagni eða eldi. Ég hef aldrei verið sérstakur pottormur svo það skemmdi ekki.sirdaliii (MYND: Tímalaus hönnun.)

Niðurstaða þessarar helgar er að ég hef sjaldan mætt eins endurnærður til vinnu á mánudagsmorgni en það er kannski bara bein afleiðing þess að við tókum góða rispu á Melkebaren í gærkvöldi til að kynnast siðmenningunni aftur. Það er þó alveg klárt að kíkt verður í bústað í Sirdal aftur, þessu yndislega og vel varðveitta leyndarmáli Vest-Agder sem öngvu að síður er svo skammt undan…virðist reyndar töluvert lengra að teknu tilliti til norskra vega.

Athugasemdir

athugasemdir