Fáum við góða dóma?

HamarSú var tíðin er íslenskir dómstólar, hvort tveggja í héraði og hinum háa Hæstarétti, létu frá sér gullaldarbókmenntir hinar mestu við uppkvaðningu dóma sinna og á ég þar við dómana sjálfa, málsástæður þeirra, atvikalýsingu, vitnisburði, lagarök og dómsuppkvaðningu. Mér eru minnisstæðar klausur á borð við „Vitnið kvaðst hafa drukkið nokkur glös af áfengisblöndu, eigi gat það greint hve mörg.“, „Ákærða Ragnari gat ekki dulist að leitað væri til hans um tilfærslu gámsins til að standa að ólöglegum innflutningi.“ og „Hins vegar er nægilega fram komið að stefndi hafi mátt þola nokkrar þjáningar af meiðslum sínum, […] Þá liggur fyrir að hann þurfti að vera án framtanna í viku eftir atburðinn,…“. Kjarnyrt, sterkt og gagnort íslenskt mál, stafsetningarvillur almennt mjög vandfundnar.

Nú virðist þessi fagurfræðilegi hluti íslenskra dóma hins vegar vera að taka nokkrum og örum breytingum til hins verra, rétt eins og málfar í  sumum fjölmiðlum hin síðustu ár eftir að léttari pyngja og niðurskurður grisjuðu mjög lið prófarkalesara á ritstjórnum. Almennt reyni ég að fylgjast þokkalega með atburðarásinni fyrir dómstólum Íslands og sjá þar hverju fram vindur, einkum (og reyndar eingöngu) með því að renna yfir nýuppkveðna dóma í athyglisverðum málum yfir kaffibolla. Hef ég við þessa annars skemmtilegu iðju æ oftar veitt því athygli að málfar sumra dóma er hratt og örugglega að verða þannig að miðlungsnema í grunnskóla hefði sett dreyrrauðan af skömm við að láta slíkt frá sér fara.

Auðvitað er misjafn sauður í mörgu fé og sem betur fer enn margur skarpur penninn við dómstóla landsins en hvað verður eftir ef þessa vígis bíða einnig þau örlög að senda frá sér talmálskenndar niðurstöður með röngum beygingum, slangri og slettum? Vituð ér enn, eða hvat?

Nokkrar klausur úr héraðsdómi sem ég las í dag:

…sem rituð er af […] Y tollsérfræðing,…

…og hafi hún verið læst með lási…

…að fjögur sms-skilaboð voru send…

…hafi verið að loka fyrir innritun þegar hann koma í flugstöðina…

   Þrátt fyrir þær alvarlegar sakargiftir…

…hann hafi síðan ætlað að redda sér.

Athugasemdir

athugasemdir