Ég stend frammi fyrir því óskemmtilega vandamáli að þurfa að kaupa mér buxur, helst núna í vikunni. Eftir að síðustu buxur nánast molnuðu utan af mér eftir prýðilega þjónustu um nokkurt skeið er ég kominn niður í það neyðarúrræði að vera í neðri hlutanum af mínum einu jakkafötum sem buxum en slíkt klæðir mig engan veginn og gerir mig allan mjög afalegan í fasi sem er í besta falli ótímabært fyrir 38 ára gamlan einstakling. (MYND: Á röravellinum hjá ConocoPhillips 2012 – föt frá NorSea Group.)
Mér leiðist óskaplega að kaupa mér föt. Það er einfaldlega verkefni sem ég vildi mjög gjarnan geta farið gegnum lífið án. Sennilega eru aðeins tvær athafnir tilverunnar sem mér þykja viðurstyggilegri en þær eru að skipta á rúminu og pakka inn gjöfum. Hvort tveggja geri ég ákaflega illa og mætti einna helst ætla að ómálga barn eða vitstola einstaklingur hafi verið að verki. (MYND: Í skúringum á SUS 2010 – föt frá sjúkrahúsinu.)
Fyrir fólk sem hefur svona takmarkaðan áhuga á fötum er gulls ígildi að komast í vinnu þar sem vinnuveitandi úthlutar ákveðnum vinnufatnaði og ætlast til að starfsfólkið sé í honum á meðan það er í vinnunni. Maður fær tvennt af öllu og hendir svo því, sem maður telur að skynsamlegt sé að fara að þvo, í þar til gerðan stamp fyrir klukkan 10 á mánudögum og einhver frá einhverju fyrirtæki úti í bæ kemur og sækir þetta og skilar því þvegnu og stroknu næsta mánudag á eftir. Gott er að halla sér að þessu fyrirkomulagi hjá NorSea Group og það var ágætt að vera að skúra sumarið 2010 og fá úthlutað hreinum og skjannahvítum vinnufötum hvern einasta morgun. Þá hugsa ég með hlýju til þriggja og hálfs árs starfs míns sem öryggisvörður hjá Securitas á Íslandi 1995 – 1999 (og smávegis 2001 – 2002) þar sem sjaldan var flókið að velja dressið fyrir vaktina. (MYND: Á vakt í olíubirgðastöðinni í Örfirisey á gamlárskvöld 2001 – föt frá Securitas.)
En það er sem sagt alltaf frítími og þá verð ég að notast við eigin fatnað svo lengi sem ég hyggst ekki ganga um nakinn sem er ekki fýsilegt á Norðurlöndunum að minnsta kosti. Í umrædd buxnakaup ræðst ég vonandi á morgun. Þetta er svo sem ekki flókið, væntanlega fer ég í Dressmann fjórtánda árið í röð og finn mér einhverja nógu óspennandi flatneskju, sennilega á 299 krónur (norskar) og helst án mátunar sem er andstyggileg athöfn. Rósa skorar á mig að prófa nú H&M einu sinni til að vera svona hæfilega wild eins og þar segir. Ég hélt að H&M væri bara fyrir kvenkyn tegundarinnar þar til rifjaðist upp fyrir mér að reyndar á ég þrennar nærbuxur þaðan sem eru á góðri leið með að verða eins og svissneskur ostur sé miðað við fjölda gata.
Hvað sem verður hlakka ég að minnsta kosti til að koma þessari óumflýjanlegu verslunarferð frá. Ólíkt skemmtilegra er að fara í ríkið…