Farið í grafgötur

skururJæja, ég tók skurðhelvítið á fimmtudaginn. Mér leið eins og ég væri að grafa Suez-skurðinn, vantaði bara sjó. Núna koma þeir frá Lyse á miðvikudag og tengja blessað breiðbandið og þá tengist ég umheiminum á ný. Þegar þetta er ritað sit ég enn einu sinni á Quality Residence Hotel í Sandnes sem er býsna huggulegt. Endar sennilega með því að ég fæ mér herbergi hérna.

Þessi skurður, sem var sennilega um fjórir metrar að lengd og 30 sentimetra djúpur, var grafinn undir stífum áhrifum neskaffis en bolli af því sést í forgrunni fyrri myndarinnar. Bollinn sjálfur var keyptur í minjagripabúð Háskólans í Helsinki þar sem ég nam fjölmiðlafræði sem Nordplus-skiptinemi vorið 2003 og bolurinn sem ég er í var keyptur í Golden Sands í Búlgaríu í ágúst 2007. Þar með hef ég gert grein fyrir öllum vörumerkjum sem beinlínis sjást á myndinni. Ég þáði enga styrki við gröft skurðarins. Hefði hins vegar betur gert það.skururii

Merkilega vel tókst að púsla grasflötinni á sinn stað aftur en ég beitti sömu aðferð og þegar menn ristu sér jarðarmen að fornu þegar svarist var í fóstbræðralag. Með því skemmdi ég grasið ekki að neinu ráði held ég en það kemur í ljós þegar Rolf á þriðju hæðinni slær það næst en hann sér um garðinn hér í Gangeren 66. Ég undirbjó þann jarðveg með því að drekka með honum brennivín á svölunum allan daginn í gær og mynda þar með þau tengsl er lengi munu uppi verða. Meira um Rolf síðar en hann er einn af stofnfélögum Hells Angels í Stavanger og var einu sinni 120 kíló að eigin sögn. Í dag lítur hann út eins og fóstur með eyrnalokk.

Hluti af tilgangi heimsóknar minnar í netvé Quality Residence í kvöld var að kanna hve margir af 463 boðsgestum í brúðkaupið okkar hefðu sent inn forfallatilkynningu nú þegar boðskortin eru farin út. Þeir reyndust vera fimm. Stefnir sem sagt í fjölmenni í Hallgrímskirkju og á Spot 30. júní næstkomandi. Ég sem gaf mér 30 prósent afföll vegna sumarfría! Jæja, þetta verður líklegast síðasta stóra veislan okkar á Íslandi svo það er best að hafa þetta ekki síðra en hjá Rómarkeisurum hinum fornu. ‘Norwegian lesbians who feed me grapes and know how to sing…’ eins og Blood Hound Gang söng á sínum tíma.

Gréta Gunnars, lestu auðmjúkt svar mitt við athugasemd þinni við síðasta pistil, ég er ekkert smá stoltur af að hafa, með nöktu hyggjuviti mínu, afhjúpað þitt ágæta heimilisfang. Margir voru þó erfiðari…þessi helvítis síða ætti að heita nei.is en ekki ja.is! Eða kannski.is.

Athugasemdir

athugasemdir