ESB (Ekkert Sérstaklega Bjartsýnn)

svinaflensaÞað er hressandi vetur fram undan, þjóðargjaldþrot og svínaflensa. Sterkur kokteill sem skilur eftir sig minningar. Komandi vetur á sér væntanlega ekki marga keppinauta þótt margt hafi þjóðin reynt en einn þeirra er væntanlega veturinn 1418 sem Íslendingar nefndu bónavetur. Saga Íslands III tilfærir svo:

Bónavetur nefndist veturinn 1418, af því að Árni biskup Ólafsson hafði þá uppi ýmsar fjárkröfur þ. á m. konungsbón, en Eiríkur konungur af Pommern átti þá í styrjöld út af Slésvík. Eitthvað hafa Íslendingar þá látið af hendi rakna.

Annars staðar segir:

Árið 1305 fór Hákon háleggur þess á leit, að Íslendingar, sem ættu til fimm hundraða eða meir, gyldu honum alin af hverju hundraði, en konungur bjóst þá við ófriði og lagði mikið í herkostnað. Íslendingar neituðu fjárbóninni með öllu á Alþingi 1306.

Það hefur verið meira spunnið í þing landsins fyrir 703 árum en nú á Icesave-tímum.

Samdráttur í áfengisverslun landsins nam 13 prósentum í nýliðnum júnímánuði. Þykir mér sem nú rætist orð ýmissa veitingamanna sem rætt var við í fjölmiðlum þegar fjármálaráðherra skellti ægivaldi sínu á þjóðina og skrúfaði áfengisverðið upp úr öllu hófi rétt fyrir hvítasunnuhelgi. Kormákur veitingamaður, kenndur við Skjöld starfsbróður sinn, spáði því þá að í fyrstu ryki salan upp en svo væri draumurinn búinn og heimabrugg og smygl tækju öll völd.

Samdrátturinn í júní styður kenninguna svo ekki verður um villst og þetta sýnir einnig umferðin um verslanir Ámunnar þessa dagana en þar er jafnan fullt út úr dyrum enda kaupir landinn sér hráefni til víngerðar sem aldrei fyrr. Lifi einkaframtakið. Nú er gott tækifæri til að sýna stjórnvöldum að það er skammgóður vermir að snarhækka verð brennivíns, eldsneytis og matar til þess að fylla upp í gríðarmikið skuldasvarthol hins íslenska Madoffs úr Landsbankanum. Bernard Madoff hóf afplánun 150 ára fangelsisdóms í gær, það gerði íslensk spegilmynd hans að sjálfsögðu ekki.

Fyrir skemmstu samþykkti Alþingi naumlega að ganga til aðildarviðræðna hjá Evrópusambandinu, þessa nútímaafsprengis Kola- og stálbandalags Evrópu (ECSC) sem komið var á fót árið 1951 að undirlagi franska utanríkisráðherrans Roberts Schuman í þeim tilgangi að fyrirbyggja frekari átök milli Frakklands og Þýskalands. Það læðist að manni að hugsun meirihluta þingmanna í atkvæðagreiðslunni í dag hafi verið að reyna af veikum mætti að forðast átök milli Bretlands, Hollands og Íslands. Spyrjum að leikslokum.

Athugasemdir

athugasemdir