Fátt er eins hjálparvana og maður sem er að reyna að hefja próflestur en menntagyðjan mætir seint og illa. Svo er mér farið í dag. Þriðjudaginn 15. desember þreyti ég próf Baldurs Þórhallssonar í hinu ágæta námskeiði Alþjóðasamvinna og staða Íslands í alþjóðakerfinu. Ég hef aldrei verið neinn sérstakur áhugamaður um Evrópusambandið, hnattvæðingu og Schengen-samstarfið. Aukinheldur er þetta eina námskeiðið sem við aumir meistaraprófsnemar í blaða- og fréttamennsku við Háskóla allra landsmanna þurfum að taka út fyrir okkar skor en námskeið Baldurs tilheyrir stjórnmálafræði eins og Baldur sjálfur.
Ekki er þó örgrannt um að pervisinn ljósgeisli af áhuga í garð Evrópusamstarfs hafi kviknað við setu mína í námskeiðinu. Það er meginástæðan fyrir því að ég sit hér á heimili mínu í kvöld með glænýtt rit eftir Eirík Bergmann, hæstvirtan Evrópuspeking háskólans við Bifröst, er ber heitið Frá Evróvisjón til evru – allt um Evrópusambandið, og drekk í mig fróðleikinn um samstarf í álfunni. Ég fellst reyndar á það sem bókmenntagagnrýnendur, sjálfskipaðir jafnt og aðrir, hafa dæmt í garð téðs rits. Það er býsna aðgengilegt og jú, á köflum skemmtilegt. Ekki er daglegt brauð að finna setningu á borð við þessa í fræðiritum um Evrópusamvinnu:
Í stað þess að ungum mönnum sé fórnað á vígvellinum er fulltrúum Evrópuríkja nú safnað saman í sálarlausu Evrópuhverfinu í Brussel. Þar er þeim komið fyrir í loftlitlum og gluggalausum fundarherbergjum, þeir eru látnir sitja á óþægilegum stólum og fá aðeins þunnt skyndikaffi að lepja. Þeim er ekki hleypt aftur út á meðal fólks fyrr en þeir hafa komist að samkomulagi um ágreiningsmál sín.
Evrópusambandið í hnotskurn eins og ég hef upplifað það og gott að einhver, sem til þekkir, viðurkennir það. Eiríkur fær sem sagt fjórar stjörnur á þessum vef – mun færri en eru í fána Evrópusambandsins en hvað um það?
Á meðan ég les Eirík og rita pistla um líf mitt hlusta ég með helmingi skilningarvita minna á þátt Ríkissjónvarpsins, Consuming Kids: The Commercialization of Childhood. Þetta er það sem ég kann hvað best við í fari almenningsútvarps okkar Íslendinga, þeir eiga það til að ramba á efni sem nálgast að vera athyglisvert. Þessi þáttur um markaðssetningu gagnvart börnum var býsna áhugaverður. Sérstaklega féll ég fyrir loðsímanum, The Fuzzy Phone, sem hlýtur að vera metsöluvara flestra kaupmanna sem sérhæfa sig í börnum en um leið hlýtur það að loða við kvikindið að hann verður frekar ógeðslegur snemma á ferlinum vegna meintra viðloðunareiginleika sinna. Spyrjið börn Ameríku, þau voru til umfjöllunar í þessum þætti.