Metangas hefur um það bil 20 prósentum meiri virkni sem gróðurhúsalofttegund en sjálfur koltvísýringurinn sem almennt er fyrstur nefndur sem sökudólgur hnattrænnar hlýnunar. Stephen Moore, prófessor við Alberta-háskólann í Edmonton, rannsakar nú hvaða gen í kúm hafa mesta þýðingu við metanframleiðslu þeirra og benda frumniðurstöður til þess að hægt sé að hanna kýr sem framleiða fjórðungi minna metangas en nú þekkist. Hefur Moore þegar birt grein um málið í Journal of Animal Science.
Hann bendir þó á að kapp sé best með forsjá og hafa verði til hliðsjónar hver langtímaáhrif alls erfðafikts verði á kýrnar og getu þeirra til framleiðslu mjólkur. Í New Hampshire í Bandaríkjunum tókst kúabónda, sem framleiðir lífræna jógúrt, að draga úr metanframleiðslu kúa sinna um 12 prósent með því að bæta refasmára (lat. medicago sativa) út í fóður þeirra.
Gerðu allir kúabændur Bandaríkjanna þetta jafngilti það því að hálf milljón fólksbíla væri tekin úr umferð segja þeir sem kynnt hafa sér málið.