Ertu ekki á Facebook?!?

Ef ég fengi eina evru (maður þorir ekki að tala í krónum lengur) í hvert sinn sem einhver slengir þessari spurningu framan í mig væri ég á góðri leið með að verða lítill alþjóðagjaldeyrissjóður í Mosfellsbæ. Svarið er tiltölulega einfalt; nei, ég er ekki þar.

pb160026Margir samferðarmenn mínir hafa heyrt þessa setningu tiltölulega oft en sjaldan er góð vísa of oft látin flakka svo ég kasta þessu hér fram einu sinni enn: Ég hef tvö prinsipp í lífinu (jæja, miklu fleiri, en tvö sem ég fer eftir): Ég nota ekki MSN og ég er ekki á Facebook. Hins vegar hef ég oft bent gagnrýnendum á að ég er með þrjú símanúmer og fjögur netföng svo flestum hefur gengið ágætlega að ná í mig fram að þessu. Lengi vel vissi ég ekkert hvaða fyrirbæri þetta MSN var en gaf mér að það væri skammstöfun fyrir Mæðrastyrksnefnd og þótti alveg magnað hvað margir í kringum mig virtust alltaf vera þar og að nefndin virtist vera orðin einhvers konar félagsheimili hálfrar þjóðarinnar. Það var misskilningur.

Fann ömmu sína á Facebook
Síma- og netfangarökin virtust nægja mæðrastyrksnefndarhópnum en ekki Facebook-hópnum. Það fólk tönnlast á því hvað það veiti því mikla hamingju að finna gömul skólasystkini hingað og þangað um heiminn, einn fann ömmu sína eftir mikla leit og ég veit um fólk sem segist hafa fundið Jesús á Facebook (það var þá auðvitað bara einhver gaur í Mexíkó sem heitir Jesus (frb. heisús) og hafði ekkert með frelsarann að gera). Hver man ekki eftir ódauðlegri línu Bloodhound Gang, ‘He goes by the name Jesus and steels hubcaps from cars, oh Jesus, can I borrow your crowbar?’

En aftur að kjarnanum, hvað á ég að gera við gömul skólasystkini um allar jarðir?? Ég elska þetta fólk alveg jafnmikið þótt ég sjái ekki myndir af mökunum þeirra í baði, börnunum að skíta og fái vitneskju um hvort þetta fólk sé á föstu eða lausu. Svo geri ég það sem örugglega ekki allir gera…ég hitti þessar elskur einfaldlega. Við erum mjög stolt, 1989 árgangurinn úr 9. bekk Garðaskóla, sem höfum hist á fimm ára fresti öll 20 árin síðan við kvöddum skólann. Næst gerist þetta 5. september í haust, með eða án Facebook-aðildar minnar.

Skrifaðu á vegginn hjá mér og ég drep þig!

Ég á mér nokkra samherja í Facebook-andófinu. Kristján Hjálmarsson, fréttastjóri á ritstjórn Fréttablaðsins, deilir þessu algjörlega með mér. Ég var þar aukalega í tvo mánuði í haust að prófarkalesa í hálfu starfi og þá áttum við Kristján það til að stinga napurri gamansemi að vinnufélögunum sem kepptust hver um annan þveran við að ‘adda’ einhverju hyski á Facebook, skrifa á vegginn hjá því (ég yrði brjálaður ef einhver færi að krota á veggina hjá mér) eða leggja fyrir það póstmódernískar kannanir um hvaða dýr, kvikmyndastjarna eða gjaldþrota útrásarvíkingur það væri.

Varð þetta að nokkurri kerskni hjá okkur Kristjáni sem spurðum Facebook-menn þá iðulega, þegar einhver persóna bar á góma, hvort viðkomandi myndi ‘adda’ honum eða henni á Facebook eða jafnvel rita á vegg viðkomandi. Fljótlega urðum við að eins konar and-Facebook-aðli þarna við borðið og hlógum við lágt innra með okkur. Það þótti mér skemmtilegt.

Hilmar Veigar Pétursson, æskuvinur minn, rauðhærðasti maður sem ég þekki og framkvæmdastjóri CCP, sagði að ég neitaði að vera á Facebook og Mæðrastyrksnefnd en stofnaði í staðinn heimasíðu. ‘Svolítið 2004,’ sagði hann. Þannig að ég næ því ekki einu sinni að vera svolítið 2007 (enda á ég hvorki jeppa né flatskjá) heldur er ég svolítið 2004. En 2004 var líka frábært ár svo það er allt í lagi. En ég hef hlotið mína upprisu og mér verður ‘addað’ í himnaríki þegar lesið verður upp úr hinum mikla kladda lífsins á efsta degi.

Athugasemdir

athugasemdir