Jæja, þá eru aðaltónleikar komandi sumars ákveðnir. Það eru ekki minni kóngar en þeir félagar í Eagles sem ætla að stútfylla Viking Stadion um hvítasunnuhelgina. Mitt fyrsta tækifæri til að eiga eitthvert raunhæft erindi á þennan annálaða leikvang borgarinnar þar sem knattspyrnan hefur aldrei náð að heilla mig og gerir varla úr þessu. Þegar er farið að hampa tónleikunum á billettservice.no og fer að styttast í að maður næli sér í miða en þrenns konar verð er í gangi miðað við staðsetningu. Mér finnst 600 króna miðinn henta ágætlega, þá situr maður einhvers staðar á hliðarlínunni með hið vinalega kaliforníska hótel beint í æð. Þetta er 12. júní, sjálfur hvítasunnudagur. Mjög skrítið að það megi hafa annað en gospeltónleika þann dag hér í biblíubeltinu en ánægjulegt engu að síður.
Það kemur upp í hugann að það var einmitt þennan sama dag, 12. júní, árið 1993 sem Rage Against the Machine héldu stórtónleika í Kaplakrikanum í Hafnarfirði. Þetta var vel sótt úr Garðabænum en ég nennti ekki, hafði enda eingöngu heyrt lagið Killing in the Name of af plötunni og fannst það ekki standa undir því að fara á alla tónleikana. Félagar mínir úr FG hituðu upp fyrir Rage og hættu því ekki fyrr en undir morgun en þá höfðu þeir fyllt trommarann svo illa að hann týndist og umboðsmaðurinn var náfölur niðri í bæ að leita að hinum horfna til að koma honum í flug. Eagles 12. júní 2011 verða uppbótartónleikar fyrir að skrópa á Rage 12. júní 1993.