Erfðabreyttir auðkennislyklar

audkenniÞað er klárt mál að auðkennislykill norskra banka er ekki hlutur sem maður röltir um með í vasanum í daglegu amstri. Við fengum þessa hlunka með póstinum í dag og héldum að verið væri að senda okkur vasareikna að gjöf þar til fylgibréfið hafði verið gaumgæft. Áður hafði borist bréf með alls kyns leynilegum talnaröðum og kröfum um varkárni á slíkum mælikvarða að ég beið bara eftir að bréfið brynni upp með einhverjum ‘self destruct’-búnaði. Svo fannst manni íslensku auðkennislyklarnir byrði!

Ég sé að mikill úlfaþytur er kominn upp á Íslandi vegna námslánaskerðingar úttekins viðbótarlífeyrissparnaðar og skil hann vel. Þarna laumast lánasjóðurinn heldur betur aftan að viðskiptavinum sínum, úttekt sparnaðarins átti samkvæmt frumvarpshöfundum og ríkisstjórn ekki að skerða nein réttindi en þar sem LÍN var ekki beinlínis bannað að láta þetta koma niður á lánþegum fengu þeir að sjálfsögðu skellinn.

Ég er í þessum hópi en skellurinn var svo sem ekki mikill. Ég ákvað að taka mín fyrstu og vonandi einu námslán á ævinni eftir að ég fékk í hendur uppsagnarbréf 1. október í fyrra. Þá sótti ég um, aðallega til að eiga einhverjar krónur milli handanna eftir áramótin. Ég gerði svo tekjuáætlun fyrir 2009 og lét þar í engu getið viðbótarlífeyrissparnaðarins sem ég hef tekið upp frá því að það var heimilað. Þetta gerði ég í góðri trú. Frá sjóðnum barst svo lánsloforð upp á 508.000 kr. fyrir allan veturinn kæmi ég mér í gegnum próf og lokaritgerð.

Í janúar barst námslán upp á 228.000 krónur fyrir haustönnina og reiknaðist mér því til að um þetta leyti greiddi sjóðurinn mér 280.000 krónur. Í millitíðinni hafði ég talið fram til skatts og þar getið um úttekt viðbótarlífeyrissparnaðar sem ekki rataði í tekjuáætlunina. Fyrir vikið á ég nú von á 175.000 krónum sem mig er reyndar farið að lengja eftir enda fékk ég einkunn fyrir ritgerðina 21. maí. Líf mitt veltur svo sem ekki á þessu en ég skil að fjöldi fólks bregðist ókvæða við. Enn ein skrautfjöður í hatt stjórnkerfis sem er ákveðið í að leggja Ísland í eyði.

Fleiri fréttir vekja athygli frá gamla landinu, 40 prósent lána stóru viðskiptabankanna í vanskilum. Ég ætla rétt að vona að innheimtuhaukar bankanna séu ekki hissa á þessari stöðu en þar gera áætlanir ráð fyrir að ekki þurfi að afskrifa meira en 6 prósent. Gamalt lag Björgvins Halldórssonar og Eyjólfs Kristjánssonar, sem teflt var fram í forkeppni Eurovision einhvern tímann fyrir 1990, kemur ósjálfrátt upp í hugann. ‘Ég lifi í draumi, dreg hvergi mörkin dags og nætur, sveiflast aðeins ósjálfrátt…’

Athugasemdir

athugasemdir