Er það ekki á Indlandi sem beljur eru heilagar?

beljaHvítvínsbeljan Viña Maipo frá Chile er nú sú ódýrasta (af hvítvíni) í ríkinu hér í Mosfellsbæ og kostar litlar 3.990 krónur (14. apríl 2009). Þetta er ódýrt hvítvín með sætum keim frá fjarlægu ríki í Suður-Ameríku. Alveg nóg fyrir mig til að sötra yfir heimanámi eða lestri fagurbókmennta, ekki kvarta ég yfir gæðunum. Beljan telur þrjá lítra, eða fjórar 750 ml flöskur. Það jafngildir því að flaskan verðleggist á 997,5 krónur íslenskar.

Í Bretlandi kostar sambærileg flaska núna 651 krónu og 322 á Spáni. Jú, það er örlítið skemmri vegalengd að flytja áfengið frá framleiðslustöðvum í Chile, tollar eru hagstæðari innan Evrópusambandsins og fleira og fleira, en það er ljóst að verð á ódýru léttvíni á Íslandi er komið langt út fyrir mörk allrar skynsemi, gjaldeyris, forræðishyggju og alls sem postular SÁÁ gætu hugsað upp á mannsaldri. Jafnvel tveimur.

Ég spyr sjálfan mig því…hvers vegna? Og svarið hlýtur ávallt að verða þekkt lína úr Fear and Loathing in Las Vegas: ‘But by the time I asked this question, there was no one around to answer it.’ Á Indlandi, þeirri uppsprettu Ganges-fljótsins, hindúisma, Bollywood-mynda og Gandhi, einnar lengstu kvikmyndar veraldar, eru beljur heilög dýr. Það skal ég virða fullkomlega hvar sem er og hvenær sem er. En eru þær líka heilög dýr í ÁTVR í Mosfellsbæ? Hvað ert þú tilbúinn að greiða fyrir þrjá lítra af fjöldaframleiddu skítsæmilegu hvítvíni, neytandi góður? Hvar hafa dagar lífs þíns lit sínum glatað? Ó, hvar?

Styrkleiki vínsins er ekki þrætuepli hér en þessi gamla ferskeytla hins norðlenska síðar Vestur-Íslendings Káins (Kristjáns Níelsar Jónssonar), sem kvartaði yfir hámarksstyrkleika bannáranna að lögum þess tíma, á að mínu viti eins vel við um verð. Sjónarhornið eitt er breytilegt:

Ég hlýt að slá við slöku
í slyngri ljóðamennt.
Það yrkir enginn stöku
á aðeins tvö prósent.

Athugasemdir

athugasemdir