Er gyllinæð endilega svona slæm?

Ótal margir hafa komið að máli við mig og beðið mig að rjúfa þögnina um gyllinæð, þetta hvimleiða fyrirbæri sem þrýstir sér í formi æðagúlps út um óæðri enda þinn, veldur þér kláða, sársauka og erfiðleikum við hægðir. En er gyllinæð nauðsynlega endalokin? Nei.gyllinaedii

Hvað er þetta, hver eru ráðin og hvernig er að stíga fram og ræða gyllinæð opinberlega. Þetta síðasta fannst mér fínt, ég ræði orðið varla um annað en gyllinæð og skemmti mér sjaldan betur. Á tímabili var ég talinn með hreint gyllin-æði, það næsta við gullæði.

Hvað gerist? Jú, þrútin bláæð í endaþarmi eða endaþarmsopi finnst sem þykkildi. Bæði er til innri og ytri gyllinæð. Innri gyllinæð er inni í endaþarminum undir þekju endaþarmsopsins. Ef hún rifnar blæðir úr endaþarmsopinu en slíkt gerist iðulega við hægðir. Ytri gyllinæð er í húðinni nálægt endaþarmsopinu og blæðir úr henni ef æðin rofnar. Það er heldur leiðinlegra en samt lærdómsríkt (Vísindavefur HÍ).

Meðferð við gyllinæð fer eftir ástandi hennar. Til eru ýmsar gerðir áburða sem notaðir eru og innihalda þeir gjarnan jurtalyf. Áburðurinn eða kremið er borið á gyllinæðina með bómullarpinna eða sprautað í endaþarminn úr túpu með plaststaut. Kremin kæla og sefa með því að draga úr kláða, þau draga úr bólgum og flýta þannig fyrir gróanda auk þess sem þau auka blóðflæði á svæðið og flýta þannig fyrir viðgerð. Um er að ræða meðal annars Sulgan sem hvort tveggja eru krem og stílar. Kremið inniheldur kamfóru sem dregur úr sviðanum sem nagar æðarhafa allan sólarhringinn.

Stundum þarf skurðaðgerð til að losna við gyllinæð en hún er ekki stórmál. Smærri æðahnúta er hægt að fjarlægja með því að smeygja litlu teygjubandi utan um botn æðahnútsins. Við þetta deyr vefurinn þar sem blóðflæði í hnútinn er stöðvað. Minni æðahnúta er einnig hægt að fjarlægja með því að sprauta í þá hersluefni sem hefur sambærileg áhrif og teygjan.

Ef gyllinæðin seytir frá sér miklum vessum getur hún pirrað jafnvel rólegasta fólk. Mér er minnisstæður vörubílstjóri sem ég vann með hjá Ístak í gamla daga. Hann settist hinn rólegasti á klósettið í kaffinu og skar undan sér myndarlega gyllinæð, vessandi djöful, með borðhníf. Svo laumaði hann hnífnum aftur í hnífaparaskúffuna án þess að nokkur sæi hvaða hnífur það var og það sem eftir lifði sumars var hann alltaf eini maðurinn sem borðaði hádegismat á vinnustaðnum. Hver veit hvort hann hafi hitt á ‘hinn gyllta hníf’.

Ég fékk netta æð 2004 og keypti Sulgan-krem og -stíla. Algjört eðalefni. Eini gallinn á gjöf Njarðar var að vinur minn [X, lögregluþjónn sem bað um að nafn hans yrði ritskoðað héðan út, það þykir nefnilega hið mesta viðkvæmnismál fyrir lögregluna og annað siðað fólk að þekkja þann er hér drepur niður penna] hafði þann leiða ávana að hringja alltaf akkúrat þegar ég var að lauma stílnum inn um hin helgustu vé. Svo þurfti maður auðvitað að hanga í símanum í stundarfjórðung og var á meðan að baxa við að koma stílnum upp með öðrum útlimum. Erfitt en ánægjulegt í minningunni.

Það sem skemmti mér mest var hve margir hringdu í mig eftir að hafa brostið kjarkur til að ræða við heimilislækninn og föluðust eftir ráðum til að kveða niður þennan oft og tíðum vessandi draug sem herjaði á enda þeirra.

Gyllinæð er hins vegar mun minna stórmál en flestir halda og samkvæmt landlækni er talið að annar hver heimsborgari fái að njóta hennar einhvern tímann á ævinni. Mundu bara, lesandi góður, að hún heitir gyllinæð af því að það er gulls ígildi þegar hún fer. En fyrst þarf að fá kvikindið. Lesendur eru beðnir að hringja eða skrifa á atli@atlisteinn.is þurfi þeir ráðahag um gúlpinn.

Athugasemdir

athugasemdir