Eric Clapton er 66 ára í dag, Tracy Chapman 47 ára, Vincent van Gogh hefði orðið 158 ára hefði hann lifað með sitt eina eyra og ég er 37 ára og þar með yngsta afmælisbarnið af þessum fjórum listamönnum. Þar með eru slétt þrjú ár í næsta afmælisdag sem ég mun halda upp á af einhverju viti. Ég er að gæla við að gera það á Íslandi og reyna að slá út þrítugsafmælið mitt á Gauki á Stöng 3. apríl 2004 þar sem rúmlega 200 manns gusuðu ofan í sig brennivíni eins og enginn væri morgundagurinn. Ég man persónulega ekki eftir þeim morgundegi en daginn eftir hann, mánudaginn 5. apríl, frömdu ellefu menn stærsta bankarán í sögu Noregs hér í miðbæ Stavanger. Það var NOKAS-ránið svokallaða sem ég hef áður skrifað um hér og var ránsfengurinn rúmar 56 milljónir norskra króna, yfir milljarður íslenskra króna miðað við gengið nú.
En aftur að þessum 37 árum. Hvað breytist með þessu? Frekar lítið. Ég þarf að láta vaxa af mér bakhár mánaðarlega auk þess að fjarlægja háls-, nef- og eyrnahár vikulega með hryllilegum rafmagnsklippum. Þetta var reyndar allt komið á síðasta afmælisdegi. Ég þarf helst að lyfta lóðum fimm sinnum í viku og æfa taekwondo tvisvar til að fara ekki hægt og bítandi að líkjast jólatré með appelsínuhúð og síðast en ekki síst þarf ég hreinlega að passa mjög vel upp á það hvað ég ét og drekk til að bak-, síðu- og aftanvert læraspik margfaldist ekki sem kanínur á fengitíma.
Það er sem sagt bara hreinlega nóg að gera og ég velti því alvarlega fyrir mér að hætta að vinna og fara á einhverjar þægilegar bætur við að sinna öllu þessu líkamlega veseni sem er að verða full vinna. Maður spyr sig bara hvernig maður verði um fimmtugt miðað við stöðuna um þessar mundir. Núna er ég til dæmis að drepast í öllu fyrir neðan mitti eftir TKD-æfingu kvöldsins sem var sú síðasta fyrir gráðun í hádeginu næsta sunnudag. Maður ætti kannski bara að fara að æfa boccia. Samkvæmt Wikipedia er það ‘…keppnisíþrótt sem líkist keiluspili og bocca. Hún er hugsuð fyrir hreyfihamlaða einstaklinga.’ Ég er eiginlega að verða það, svei mér þá.
Nóg er að gerast í skattamálum. Við vorum að skila skattframtali til ríkisskattstjóra á Íslandi en þá bíður bara það næsta, hin norska selvangivelse sem er skattframtalið hér með skilafrest 30. apríl. Þetta er allt útfyllt fyrir fram auðvitað og hið þægilegasta. Það eina sem við þurfum að gera er að biðja um sérstakan skattaafslátt fyrir nýja íbúa landsins sem veittur er fyrstu tvö árin og nemur tíu prósentum launa skattaársins á undan. Eins er viðbótarlífeyrissparnaður frádráttarbær eftir á.
Norðmenn eru býsna bilaðir að mörgu leyti en eitt af nokkrum snjöllum fyrirbærum sem þeir hafa komið sér upp er Skattebetaler foreningen eða Samtök skattgreiðenda. Þetta eru gallharðir skrattar sem rífa kjaft yfir öllum breytingum á skattafyrirkomulagi sem hafa í för með sér færri endurgreiddar krónur til skattpínds almúgans og hjóla svo í fjármálaráðherra í fjölmiðlum og biðja um rök. Hérna er þetta þannig að stjórnmálamenn eru í þeirri vondu stöðu að þurfa að svara opinberum fyrirspurnum ólíkt því sem tíðkast á Íslandi þar sem menn segjast bara ekki hafa tíma fyrir svona vitleysu og fara svo í lax.
Þetta myndband er eins og bein útsending frá Alþingi.